Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/15562
Aukin flokkun og endurvinnsla úrgangs hefur fengið mikla athygli á síðustu misserum.
Lífrænn úrgangur er hátt í 30% af heildarúrgangi heimila og fyrirtækja og í þessum úrgangi
liggja mikil verðmæti. Með hækkandi urðunarkostnaði hafa menn leitað leiða til að draga úr
kostnaði við urðun og draga úr því magni sem urðað er. Margfalt meira magn er endurunnið í
dag en gert var hér á landi fyrir allnokkrum árum. Jarðgerð á lífrænum úrgangi hefur rutt sér
til rúms hér á landi en við jarðgerð verður til afurð sem kallast molta. Víða erlendis er molta
notuð í landbúnaði sem annaðhvort áburður eða jarðvegsbætir. Lítið af rannsóknum er til um
áburðargildi moltunnar og var það kveikjan að þessu verkefni.
Lagðar voru út þrjár eins tilraunir á þremur túnum, og hver á mismunandi jarðvegsgerð á
Möðruvöllum í Hörgárdal. Meðferðarliðirnir voru 8; með moltu, mykju eða tilbúnum áburði í
mismunandi magni. Alls voru reitirnir 72 og var hver reitur sleginn tvisvar yfir sumarið.
Markmið verkefnisins var að kanna hver áburðarsvörun moltunnar væri í samanburði við
mykju og tilbúinn áburð. Einnig að kanna hvaða ávinningur fælist í því að nota moltu miðað
við tilbúinn áburð.
Helstu niðurstöður eru þær að molta skilar ekki aukinni þurrefnisuppskeru miðað við mykju.
Tilbúinn áburður skilar mun betur þurrefnisuppskeru eftir hvert kg köfnunarefnis en moltan.
Ekki er neinn ávinningur til skamms tíma af notkun moltu ef miðað er við tilbúinn áburð og
moltan hentar ekki sem áburður sem nýtast þarf skjótt. Næringarefnainnihald í moltunni er
mjög breytilegt og ómögulegt að setja föst áburðargildi fyrir moltu en með ítarlegum
efnagreiningum er hægt að áætla gróft það efnamagn sem moltan skilar.
Kalí er með einna mestan leysanleika í moltunni en mjög lítið er hins vegar af kalí í moltu.
Mjög mikilvægt er að þroski moltunnar fari rétt fram og moltan sé búin að ná fullum þroska
þegar hún er notuð af bónda eða öðrum aðilum. Hætta er á því ef moltan hefur ekki náð
réttum þroska áður en henni er dreift á tún að niðurbrotsörverur taki til sín köfnunarefni frá
jarðveginum og dragi þannig úr framboði köfnunarefnis fyrir plönturnar.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
2013_BS_Hermann_Ingi_Gunnarsson.pdf | 3,59 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |