is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Landbúnaðarháskóli Íslands > Auðlindadeild (2005-2016) > B.S. verkefni - Auðlindadeild >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/15566

Titill: 
 • Afdrif og þrif fósturlamba.
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Meginmarkmið þessa verkefnis var að bera saman þrif og afdrif lamba sem ganga undir fósturmæðrum og lamba sem ganga undir mæðrum. Unnið var með tvenns konar gagnasöfn. Annars vegar gögn úr bókhaldi Landbúnaðarháskóla Íslands frá Hesti frá árunum 2007-2012 og hins vegar gögn frá 22 sauðfjárbúum úr skýrsluhaldi Bændasamtaka Íslands frá árunum 2007-2011. Eftir hreinsun gagna frá Hesti stóðu eftir 4.306 lömb með a.m.k. eina þungamælingu og í gögnum frá BÍ stóðu eftir 60.792 lömb.
  Samanburðarhæfir lambahópar voru skilgreindir, þrír fósturhópar og einn viðmiðunarhópur er innihélt lömb er ólust upp hjá eigin móður. Gögnin frá Hesti voru notuð til að bera saman vöxt lambahópa frá fæðingu fram til júníloka, vöxt frá fæðingu til fyrsta vigtunardags í lok september, lífþunga og vanhöld bæði um vor og haust. Gögn frá skýrsluhaldi BÍ voru notuð til að bera saman lífþunga og vanhöld um haust.
  Niðurstöður um bæði vöxt og lífþunga úr skýrsluhaldi frá Hesti gáfu til kynna að munur sé á milli fósturlamba og lamba er alast upp hjá eigin móður. Liggur sá munur í gemlingslömbum og ærþrílembingum er alast upp hjá fósturmóður, en þau lömb eru léttust við fæðingu. Erfitt er að segja til um hvort aðferðir við undirvenjur hafi áhrif á niðurstöður, en allt bendir til þess að munurinn liggi í fæðingarþunganum. Niðurstöður um lífþunga úr skýrsluhaldi BÍ gefa til kynna að fósturlömb séu léttari um haust en lömb er alast upp hjá móður sinni. Lömbin höfðu þó hlotið misjafna meðferð og ekkert var vitað um búsaðstæður né búsaðferðir á hverjum bæ. Því ber að taka niðurstöður um lífþunga úr skýrsluhaldi BÍ með fyrirvara.
  Vanhöld lamba að vori voru marktækt meiri hjá fósturlömbum (8,36%) en lömbum er ólust upp hjá eigin móður (3,56%). Ekki var hægt að finna orsök aukinna vanhalda fósturlamba að vori, en líkur eru á að þær tengist fæðingarþunga, en koma samspil annarra þátta til greina eins og til dæmis samkeppni við systkinið og lakari tengsl fósturlambs við fósturmóður. Vanhöld lamba að hausti reyndust misjöfn milli gagnasafna. Ekki kom fram munur á vanhöldum úr skýrsluhaldi frá Hesti, hvort sem um var að ræða fósturlömb eða lömb er ólst upp hjá eigin móður. Marktækur munur kom fram í gögnum BÍ, en þar drápust fósturlömbin frekar. Heildarvanhöld að hausti voru meiri á Hesti en úr skýrsluhaldi BÍ. Mikill dauði lamba í skurðum að hausti skýrir ef til vill hluta af þessum miklu vanhöldum hjá Hesti.

Samþykkt: 
 • 5.6.2013
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/15566


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
2013_BS_Antonia_Hermannsdottir.pdf713.16 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna