Please use this identifier to cite or link to this item: https://hdl.handle.net/1946/15737
Söngkennsla á sér langa sögu. Á Íslandi hófst kennsla í söng upp úr 1107 en um þá kennslu sá franskur prestur, Riccini. Ólíkt því sem þá var, eru í dag til margar aðferðir til söngkennslu, námsleiðirnar eru margar og hver kennari hefur sínar áherslur. Flestir kennarar eru þó sammála um að í meginatriðum felist kennslan í því að nemandi læri á rödd sína þannig að söngur verði áreynslulaus og skaði ekki rödd hans.
Áhugasvið nemenda er einnig misjafnt, mikilvægt er að kennsla miði að því að þarfir þeirra séu uppfylltar. Því þyrfti að endurskoða námskerfið með það að markmiði að nemendur gætu valið áherslur í námi. Þ.e. hvort þeir ætli sér í atvinnumennsku eða stunda söngnámið sér til yndisauka.
Á sama tíma þarf að huga að því að á landinu eru margir tónlistar- og söngskólar og uppbygging þeirra hefur að mestu leyti verið vegna hugsjónafólks sem rutt hefur brautina og gert listalíf á Íslandi að því sem það er í dag. Það eitt dugar þó ekki til. Menntastefnan á Íslandi þarf einnig að ná til tónlistarskólanna, þannig að þeir móti sér skýra stefnu, sérstaklega í ljósi þess að hið opinbera og sveitafélög hafa dregið úr framlögum til skólanna, þeim er sífellt þrengri stakkur skorinn. Því má velta vöngum yfir því hvort kennsla sé skilvirk og hvort söngnám eigi yfir höfuð að standa öllum til boða, sem þess óska.
Einnig má líka velta fyrir sér hvort hægt sé að nýta peninga betur með sameiginlegum hagræðingaraðgerðum skólanna. Sú hagræðing gæti leitt til frekari samvinnu sem og breiðari menntunar nemenda.
Endurmenntun er öllum mikilvæg og því er áríðandi að söngkennarar hafi tök á endurmenntun líkt og aðrir innan kennarastéttarinnar. Þeir séu vel að sér í því sem þeir kenna og nýjungum innan fagsins.
Ritgerðarsmiður hefur engar lausnir í hendi sér, enda er tilgangur ritgerðarinnar ekki sá. Tilgangurinn er að mestu sá að glöggva lesendur á því hver staða söngkennslu á Íslandi er í dag og hvað betur má fara.
Filename | Size | Visibility | Description | Format | |
---|---|---|---|---|---|
Helga Margrét.pdf | 242.49 kB | Open | Heildartexti | View/Open |