Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/15928
Viðfangsefni ritgerðarinnar má í grófum dráttum skipta í þrjá hluta að undanskyldum fyrsta kafla sem fjallar um Ísland og Evrópusamrunann í sögulegu samhengi. Í fyrsta lagi verður fjallað um meginregluna um skaðabótaábyrgð ríkis í EB-rétti, sem fyrst var staðfest í sameiginlegum málum C-6/90 og C-9/90 Francovich o.fl. gegn Ítalíu. Í annan stað beinist umfjöllun að hliðstæðri meginreglu um skaðabótaábyrgð ríkis í EES-rétti sem fyrst var staðfest í ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins í máli E-9/97 Erla María Sveinbjörnsdóttir g. íslenska ríkinu. Umfjöllun beggja þessara reglna lýtur að þróun þeirra í dómaframkvæmd, þeim skilyrðum sem þurfa að vera fyrir hendi svo slík ábyrgð komi til greina og þá sérstaklega skilyrðið um ,,nægilega alvarlega’’ vanefnd en það er jafnframt þungamiðja þessarar ritgerðar. Markmið ritgerðarinnar er að gera grein fyrir meginmun á skaðabótaáhrifum samkvæmt EES-rétti og EB-rétti. Í tengslum við umfjöllun um skaðabótaábyrgð ríkja, sem hvergi er að finna berum orðum í EES-samningnum, er það einnig rannsóknarspurning höfundar hvort framsal íslenska ríkisins á fullveldi sínu hafi verið meira en ráðgert var við undirritun EES-samningsins.
Er það mat höfundar að jafnvel þó niðurstaðan væri á þann veg að íslenska ríkið hafi framselt hluta af ríkisvaldi sínu við undirritun og löggildingu EES-samningsins þá þurfi það ekki endilega að haldast í hendur við framsal á fullveldi. Enginn er neyddur til að vera aðili að hinu Evrópska efnahagssvæði, samningurinn er uppsegjanlegur og því hafi íslenska ríkið fullt forræði yfir sjálfu sér.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BA ritgerð.pdf | 522,88 kB | Opinn | Skoða/Opna |