is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskólinn í Reykjavík > Tæknisvið / School of Technology > Med/MSc Tækni- og verkfræðideild (-2019) / School of Science and Engineering >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/16119

Titill: 
 • Hafa svæðisáætlanir sveitarfélaga stuðlað að minni urðun og aukinni endurnýtingu?
Námsstig: 
 • Meistara
Útdráttur: 
 • Sveitarfélög eru skyldug til þess að staðfesta svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs. Svæðisáætlun er ætlað að fylgja eftir stefnu landsáætlunar um meðhöndlun úrgangs. Hún er því aðgerðaáætlun og þarf sem slík að setja mælikvarða á hversu mikið þarf að draga úr urðun og auka endurnýtingu ásamt því að útfæra aðgerðir hvað varðar meðhöndlun úrgangs og hvernig íbúar verði hvattir til að auka endurnýtingu svo markmiðum landsáætlunar verði náð. Árangur áætlana byggir að stórum hluta á því hvort mælikvarðar og aðgerðir séu vel skilgreind í áætluninni. Samkvæmt úttekt á áætlunum ríkisins er útfærslu framkvæmda yfirleitt ábótavant og því áhugavert að skoða hvernig framkvæmd svæðisáætlana hefur verið.
  Markmið verkefnisins er að skoða hvort svæðisáætlanir sveitarfélaga um meðhöndlun úrgangs stuðla að minni urðun og aukinni endurnýtingu heimilisúrgangs. Svæðisáætlanir átta sveitarfélaga voru greindar með tilliti til mælikvarða og aðgerða í átt að minni urðun og aukinni endurnýtingu. Rýnt var í aðgerðir sveitarfélaganna og skoðað hvort að þær samræmast aðgerðum svæðisáætlana. Einnig var árangur sveitarfélaganna skoðaður með því að rýna í magntölur úrgangs. Þá voru skoðaðar aðgerðir sem hafa verið notaðar við úrgangsstjórnun og dæmi um úrgangsstjórnunaráætlanir í Evrópu.
  Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að svæðisáætlanir setja yfirleitt ekki mælikvarða og útfæra ekki aðgerðir þannig að þær stuðli að minni urðun og aukinni endurnýtingu. Skortur á áreiðanlegum upplýsingum um magn úrgangs og endurvinnsluefna er talinn hafa áhrif þar á. Tenging milli sveitarfélaga og svæðisáætlana virðist vera lítil og sveitarfélög horfa frekar til svæðisáætlunar sem leiðbeinandi skjals en sem aðgerðaáætlunar sinnar í úrgangsstjórnun. Ástæða þess að sveitarfélög hafa tekið upp aukna úrgangsstjórnun er í flestum tilfellum vegna áhuga innan sveitarfélagsins og er margt sem bendir til þess að hvati fyrir sveitarfélög sé ekki nægilegur til þess að auka úrgangsstjórnun. Aðalskipulag sveitarfélags getur verið hentugur vettvangur fyrir áætlun sveitarfélags við úrgangsstjórnun og getur mögulega dregið úr því bili sem er á milli sveitarfélaga og svæðisáætlana.
  Lykilorð: landsáætlun meðhöndlun úrgangs, svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs, sveitarfélög, meðhöndlun úrgangs, aðalskipulag.

Samþykkt: 
 • 8.8.2013
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/16119


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Ester Anna Ármannsdóttir Svæðisáætlanir.pdf1.05 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna