Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/16152
Hér er fjallað um gerð útvarpsþáttanna Gengið á hljóðið. Í þeim er talað við unga tónlistarmenn sem allir eiga það sameiginlegt að vilja leita nýrra leiða til þess að gestir upplifi tónlist með sérstökum hætti á tónleikum. Í verkefninu er gert ráð fyrir því að aðalhlutverk tónlistar sé að veita áheyrendum einhverja sérstaka upplifun, en spurningin sé hvernig það megi gera. Markmið verkefnisins er því að kanna hugmyndir ungs tónlistarfólks sem vill þróa tónleikaformið og vekja áhuga breiðari hóps fólks á klassískri tónlist. Kannað er hverjar helstu áskoranir ungs tónlistarfólks eru á klassískum tónlistarvettvangi í dag og hvernig það tekst á við þær.
Útvarpsþáttagerð krefst mikillar umhugsunar um miðilinn, m.a. hverjir styrkleikar og veikleikar hans eru. Útvarpsmiðillinn hentar vel tónlistartengdu viðfangsefni verkefnisins. Það er auðvelt að spila tóndæmi og einnig geta ungu tónlistarmennirnir útskýrt hugmyndir sínar fyrir hlustendum með eigin orðum. Huga þurfti að ýmsum tæknilegum atriðum við þáttagerðina, s.s. hvers konar upptökutæki væri notað, viðtalstækni og handritsgerð. Þættirnir voru unnir í samstarfi við RÚV og var vinnslu þeirra lokið í samvinnu við tæknimenn þar á bæ.
Niðurstöður verkefnisins sýndu að helsta áskorun ungra tónlistarmanna væri að setja tónlist í spennandi búning til þess að veita áhorfendum sérstakar upplifanir en án þess að tapa gæðum listarinnar. Viðmælendur voru uppteknir af sjónrænni upplifun tónleikagesta ásamt því að mikilvægt væri að huga vel að kynningarefni tónleika. Ungir tónlistarmenn eru fullir af nýstárlegum og spennandi hugmyndum og eru reiðubúnir að hrinda þeim í framkvæmd. Þeim virðist vera mjög umhugað um að ná til áheyrenda sinna og hvernig þeir upplifa tónleikana. Hugmyndir viðmælenda fólust m.a. í því að halda tónleika í niðamyrkri, vinna í samstarfi við teiknimyndagerðarmenn og flytja píanókonsert þar sem hljómsveitin reynir að elta uppi einleikarann sem ekki vill flytja konsertinn. Það er því mikil gróska á klassískum tónlistarvettvangi, sérstaklega meðal ungs tónlistarfólks.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Greinargerd_lokaeintak.pdf | 1.11 MB | Opinn | Greinargerð | Skoða/Opna |