Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/16382
Markmið: Að taka saman núverandi þekkingu um forvarnir og meðferðarúrræði er varða næringu sem taka ætti tillit til í meðhöndlun sjúklinga með ristilpokasjúkdóm. Enn fremur er markmið verkefnisins að taka saman skilmerkilegar upplýsingar um ristilpokasjúkdóm sem gætu nýst fyrir klínískar leiðbeiningar í framtíðinni.
Aðferð: Heimildaleit um forvarnir gegn ristilpokasjúkdómnum og meðferðarúrræði úr ritrýndum greinum sem og kennslu- og fræðibókum. Leitað var að heimildum á íslensku og ensku á tímabilinu frá 15. janúar 2013 til 4. apríl 2013.
Niðurstöður: Talið er að bygging ristils, ristilhreyfingar, erfðir og lítil trefjaneysla séu orsakaþættir ristilpokasjúkdómsins. Trefjategundir eins sellulósi, hemisellulósi og lignín eru talin hafa góð áhrif. Skortur á líkamlegri hreyfingu getur einnig haft áhrif á þróun á ristilpokasjúkdómi. Svo virðist sem líkamsþyngdarstuðull og líkamssamsetning skipti einnig máli til þess að koma í veg fyrir að einstaklingar þrói með sér ristilpokasjúkdóm. Fituneysla virðist tengjast aukinni hættu á því að fá ristilpokasjúkdóm, sérstaklega þegar trefjaneysla er lítil. Mikil trefjaneysla ásamt fullnægjandi vökvaneyslu er undirstaða meðferðar einstaklinga með lítil einkenni. Fyrir einstaklinga með mikil einkenni getur reynst nauðsynlegt að hvíla ristilinn sem og þörf á innlögn á spítala. Skurðaðgerð er ætluð fyrir þá sem fá endurteknar ristilpokabólgur, erfiða ristilpokabólgu og fyrir þá sem fá rof og alvarlega blæðingu. Sjúklingur með ristilpokabólgukast getur þurft trefjalítið fæði í upphafi og svo í framhaldinu aukið trefjaneysluna smátt og smátt. Trefjaríkt fæði hefur dregið úr einkennum hjá flestum sjúklingum. Bólgueyðandi lyf eru notuð til þess að minnka ristilpokabólgu. Bætibakteríur eru taldar geta haft góð áhrif á ristilpokabólgu einar og sér og einnig með trefjum og eða bólgueyðandi lyfjum.
Ályktun: Trefjaríkt mataræði virðist hafa veruleg áhrif bæði sem forvörn og meðferð við ristilpokasjúkdómi. Nýjar rannsóknir og núverandi þekking um bætibakteríur gefur góðar vonir um að fram komi nýjar aðferðir í meðferð við ristilpokasjúkdómi.
Lykilorð: Ristilpokasjúkdómur, næring, forvarnir, meðferð.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
LOKA_BSc_JONA.pdf | 1.58 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |