Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/16388
Lokaritgerð þessi til Magister Artium í skattarétti og reikningsskilum er á sviði skattaréttar og fjallar um skattalega meðferð við eftirgjöf á skuldum lögaðila og manna í atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi. Eftir efnahagshrunið sem varð hér á landi haustið 2008 varð viss forsendubrestur í efnahagslífinu og stökkbreyttust margar kröfur sem leiddi til þess að margir, bæði einstaklingar og fyrirtæki, lentu í greiðslu/og eða skuldavanda. Leituðust stjórnvöld við að bæta hag þeirra sem á þurftu að halda, bæði með almennum og sértækum aðgerðum.Ekki þótti raunhæft að beita alfarið, við úrlausnir skuldavanda, hefðbundnum þrotaaðferðum eins og fjárnámi, nauðasamningum og gjaldþrotameðferð, því slíkt yrði allt of tímafrekt og myndi einnig stífla dómskerfi landsins. Þótti raunhæfast að heimila kröfuhöfum að gefa eftir kröfur sínar ef ljóst væri að gjaldþol eða trygging til að inna af hendi endurgreiðslur þeirra væri ekki til staðar hjá skuldara. Talið var mikilvægt, til að sú leið skilaði árangri, að tryggja að slík eftirgjöf skulda myndaði ekki skattstofn hjá lántökum, enda væri verið að fella niður skuldir sem hvort eð er hefðu ekki innheimst og ekki myndað skattstofn ef þær hefðu verið felldar niður samkvæmt hefðbundinni fullnustumeðferð. Forsenda eftirgjafar skulda þyrfti því að vera að gjaldþol væri ekki til staðar hjá skuldara svo ekki væri um skattskyldan örlætisgjörning að ræða. Til að taka af öll tvímæli var af þeirri ástæðu bætt við lög um tekjuskatt nr. 90/2003 bráðabirgðaákvæðum er varðar skattalega meðferð við eftirgjöf skulda, bæði hjá einstaklingum og hjá lögaðilum, mönnum í atvinnurekstri eða sjálfstæðri atvinnustarfsemi.
Markmið ritgerðarinnar er að skoða þau bráðabirgðaákvæði er snúa að skattalegri meðferð við eftirgjöf skulda hjá lögaðilum og mönnum er stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi og skoða hvort eftirgjöf skulda hjá þeim teljist til skattskyldra tekna en samkvæmt 7. gr. tsl. eru skattskyldar tekjur, með þeim undantekningum og takmörkunum sem síðar greinir, hvers konar gæði, arður, laun og hagnaður sem skattaðila hlotnast og metin verða til peningaverðs og skiptir ekki máli hvaðan þær stafa eða í hvaða formi þær eru.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
skattaleg meðferð við eftirgjöf skulda hjá lögaðilum Elísabet Kjartansdóttir -.pdf | 513.6 kB | Lokaður til...05.09.2032 | Heildartexti |