is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/16389

Titill: 
 • Áhættutaka í íþróttum. Með áherslu á skaðabótaábyrgð íþróttamanna, áhorfenda og annarra vegna tjóns í íþróttum
Námsstig: 
 • Meistara
Útdráttur: 
 • Viðfangsefni þessarar ritgerðar er áhættutaka í íþróttum og þær tegundir ábyrgða er koma til greina þegar einstaklingur verður fyrir tjóni við íþróttaiðkun. Umfjöllunin einskorðast þó ekki bara við þá er slasast við sjálfa íþróttaiðkunina heldur nær hún einnig til þeirra sem koma að íþróttum með óbeinum hætti og verður þá sérstaklega fjallað um tjón er áhorfendur á íþróttakappleikjum kunna að verða fyrir.
  Áhugi höfundar á efni ritgerðarinnar vaknaði við skoðun á dómi Héraðsdóms Reykjaness 24. mars 2000, S-1889/1999, sem var hluti af námsefni Skaðabótaréttar á öðru ári við deildina. Höfundi fannst niðurstaðan athyglisverð og vaknaði áhugi á að kanna hversu langt þátttakendur í íþróttum gætu gengið í háttsemi sinni inni á leikvelli án þess að þurfa að sæta ábyrgð.
  Í grundvallaratriðum afmarkast ritgerðarefnið með eftirfarandi hætti.
  Í kjölfar inngangs ritgerðarinnar, þar sem efni og innihald ritgerðarinnar er kynnt er í öðrum kafla fjallað um grundvöll skaðabótaábyrgðar og þá sérstaklega sakarregluna, hina ólögfestu meginreglu um bótagrundvöll í íslenskum rétti. Gert verður grein fyrir skilyrðum reglunnar með sérstakri áherslu á þau hugtaksskilyrði reglunnar sem líklegust eru að komi til álita þegar menn slasast við íþróttaiðkun.
  Í þriðja kafla er vikið að reglunni um vinnuveitendaábyrgð. Þótt reglan sé ólögfest er óhætt að fullyrða að hún er ein þýðingarmesta reglan um bótagrundvöll í íslenskum rétti. Þrátt fyrir að enginn vafi leiki á um tilvist reglunnar er hins vegar álitamál hvort íþróttafélög verði látin sæta skaðabótaábyrgð á tjóni sem leikmaður þess veldur, byggða á grundvelli reglunnar. Verður reynt að finna svar við því álitaefni.
  Í fjórða kafla verður hugtakinu áhættutaka gerð ítarleg skil. Vegna tjóna sem þátttakendur í íþróttaiðkun hafa orðið fyrir í gegnum tíðina hefur myndast dómvenja fyrir því að fébótaábyrgð er ekki talin vera fyrir hendi vegna reglna um áhættutöku tjónþola. Mörkin milli áhættutöku og samþykkis annars vegar og eigin sakar tjónþola hins vegar eru oft á tíðum afskaplega óljós og oft örðugt að greina þar á milli en réttaráhrif eru hins vegar ólík þar sem áhættutaka leiðir almennt til brottfalls bótaréttar tjónþola en eigin sök lækkun bótakröfu að heild eða hluta.
  Í fimmta kafla verður fjallað um áhættutöku í íþróttum og miðast umfjöllunin að mestu leyti við dómaframkvæmd og ályktanir sem höfundur dregur af henni. Hugsanlega má finna breytingu í íslenskum rétti er lýtur að því að áhættutaka í íþróttum leiði til algers missis
  bótaréttar tjónþola. Sjónarmið sem ýta undir þá ályktun höfundar er að finna í Hrd. 12. feb 2009 (390/2008) sem vikið verður sérstaklega að.
  Í sjötta kafla verður umfjöllunarefnið refsiábyrgð íþróttamanna. Þátttakandi í íþróttum getur ekki eingöngu orðið skaðabótaskyldur vegna háttsemi sinnar heldur getur hann sömuleiðis þurft að sæta refsiábyrgð. Sjaldan koma tilvik sem þessi til kasta dómstóla hér á landi eða annars staðar á Norðurlöndum. Ástæðan er líklega sú að refsiábyrgð kemur einungis til greina að uppfylltum ströngum skilyrðum og ásetningur er ávallt skilyrði þess að einstaklingur getur þurft að sæta refsiábyrgð. Þó eru dæmi úr réttarframkvæmd bæði hér á landi og á Norðurlöndum þar sem reynt hefur á refsiábyrgð íþróttamanna og verður skýrt frekar frá þeim.
  Í sjöunda kafla verður sjónum beint að því tjóni sem verður af völdum annars þátttakanda. Ljóst er að hættan á að verða fyrir slysi í íþróttum er mismikil, allt eftir því hvernig íþróttir er um að ræða hverju sinni. Í íþróttum þar sem fram fara líkamleg átök og miklar snertingar milli leikmanna er meiri hætta á tjóni eðli máls samkvæmt heldur en í þeim íþróttum þar sem snerting er bönnuð eða talin óeðlileg. Jafnframt verður fjallað um slys sem áhorfendur og aðrir utanaðkomandi verða fyrir á íþróttaviðburðum. Gert verður grein fyrir sjónarmiðum og reglum er gilda um slys sem þessi og reynt að draga ályktanir af íslenskri sem og erlendri dómaframkvæmd.
  Í áttunda kafla verður gerður samanburður á sakarmati og sjónarmiðum um áhættutöku annars vegar tengd slysum er verða við íþróttaiðkun og hins vegar frítímaslysum. Samanburðurinn byggist mest megnis á skoðun dómaframkvæmdar og ályktunum höfundar út frá þeim.
  Í níunda kafla verður í stuttu máli fjallað um rétt einstaklinga sem slasast við íþróttaiðkun til þess að fá tjón sitt bætt með öðrum leiðum en með skaðabótum, og verður umfjöllunin að mestu miðuð við þær tegundir vátrygginga sem helst koma til álita varðandi tjón í íþróttum
  Loks verða niðurstöður dregnar saman í tíunda kafla.

Samþykkt: 
 • 5.9.2013
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/16389


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Elvar Guðmundsson.pdf709.24 kBLokaður til...18.07.2030HeildartextiPDF