is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/16394

Titill: 
  • Réttur til heilnæms umhverfis. Þróun á túlkun 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu í umhverfismálum er varða mengun og mengandi starfsemi
  • Titill er á ensku A right to a healthy environment. The case law of ECHR regarding article 8, in matters concerning environmental pollution and polluting activities
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Ritgerð þessi inniheldur rannsókn sem gerð var á dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) í málum þar sem kvartað var undan mengunaráhrifum á einkalíf, fjölskyldulíf og heimili, á grundvelli 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Markmið rannsóknarinnar var að svara spurningunni: Hversu ríkur er réttur einstaklinga til að búa við heilnæm umhverfisskilyrði samkvæmt dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu? Dómaframkvæmd MDE í umhverfismálum hefur að nokkru lagt af mörkum til þróunar réttarins til heilnæms umhverfis, sem enn er ekki lagalega viðurkenndur á alþjóðavísu. Í upphafi rannsóknarinnar er fjallað um þróun umhverfisréttinda. Ekki hefur verið gerður einn almennur alþjóðasamningur sem kveður á um rétt manna til umhverfis að tilteknum gæðum. Þó er rætt um þær alþjóðayfirlýsingar, mannréttindasamninga og stjórnarskrár sem innihalda ákvæði um rétt til umhverfis að tilteknum gæðum. Fræðileg umræða um þróun umhverfisréttinda hefur verið umfangsmikil á síðustu 20 árum og er hún að hluta til rakin. Jafnframt er Árósasamningurinn, samningur um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum, kynntur til sögunnar. Hann hefur haft umtalsverð áhrif á þróun umhverfisréttinda á vegum MDE. Við gerð Mannréttindasáttmálans, sem tók gildi 3. september 1953, voru réttindi þau sem Mannréttindasáttmálinn kveður á um talin þau sem allra mikilvægast væri að vernda eftir hamfarir seinni heimsstyrjaldarinnar. Þar sem umhverfismál voru ekki farin að valda verulegum áhyggjum á þeim tíma, inniheldur sáttmálinn engin ákvæði um umhverfið eða verndun þess. Mannréttindasáttmálinn er hins vegar sagður vera lifandi samningur sem fylgi eðlilegri þróun, en eigi ekki að staðna í réttarskipan sem ríkti við samningu. Það er því viðtekin venja að skýra verður ákvæði hans í takt við breyttar aðstæður á hverjum tíma og breytt viðhorf og hafa hugfast markmið hans, að vernda mannréttindi í raun. Þessi framsækna skýringaraðferð Mannréttindadómstólsins hefur gert það að verkum að einstaklingar sem hagsmuna eiga að gæta hafa komið málum fyrir dómstólinn sem varða áhrif umhverfis á líf og heilsu þeirra. Í meginkafla rannsóknarinnar er gerð greining á dómaframkvæmd Mannréttindadómstólsins, í málum þar sem byggt hefur verið á því að brotið hafi verið gegn 8. gr. sáttmálans vegna umhverfisáhrifa, en hún verndar friðhelgi einkalífs, fjölskyldulífs og heimilis. Kaflinn er þannig uppbyggður að fyrst er fjallað almennt um ákvæði 8. gr., því næst er umfjöllun um fyrstu málin sem kærð voru til MDE á grundvelli 8. gr. sem vörðuðu umhverfið og þá er skilyrðum heimfærslu til 8. gr. gerð skil. Að því loknu er rætt um hinar svokölluðu jákvæðu og neikvæðu skyldur sem taldar eru felast í 8. gr. sem og mikilvægar túlkunarreglur MSE, meðalhófsregluna og regluna um svigrúm ríkja til mats. Þessu næst er stutt umfjöllun um sönnunarkröfur og kröfur um orsakasamband á milli áhrifa sem kærandi upplifir og hinnar umþrættu hættu eða mengunaruppsprettu. Meginefni kaflans er skipt gróflega í efnisreglur annars vegar, sem inniheldur nokkra mikilvæga undirkafla, og formreglur hins vegar, sem einnig hefur að geyma undirkafla þar sem koma fram mikilvægar reglur. Að endingu eru dregnar ályktanir af dómaumfjölluninni, fjallað um þýðingu Árósasamningsins fyrir dómaframkvæmd MDE sem varðar 8. gr. og þýðingu stjórnarskrárákvæða um rétt til heilnæms umhverfis fyrir dómaframkvæmd MDE. Af rannsakaðri dómaframkvæmd má álykta svo að MSE veiti rétt til einhverra lágmarks gæða umhverfis, nægjanlega heilnæms til að réttur verndaður af 8. gr. MSE, friðhelgi einkalífs, fjölskyldulífs og heimilis verði ekki skertur, án réttlætanlegra ástæðna sem verða að uppfylla skilyrði um lögmæti, nauðsyn og að þau stefni að tilteknum markmiðum.
    MDE játar einstaklingum rétt til þess að þau mannréttindi sem vernduð eru af Mannréttindasáttmálanum verði tryggð og gerð virk í raun. Því ber ríkjum að ráðast í jákvæðar aðgerðir til þess að koma í veg fyrir, lágmarka eða stöðva mengun, til verndar mannréttindum. Þannig hefur MDE með dómaframkvæmd sinni þróað rétt einstaklinga til umhverfis nægjanlega heilnæms til þess að þeir fái notið grunnréttinda þeirra sem vernduð eru af MSE. Rétturinn er þó ekki algildur því hann má takmarka að uppfylltum skilyrðum. Málsmeðferðarréttindi þeirra sem hagsmuna hafa að gæta eru þó viðurkennd með ríkum hætti af MDE. Þau réttindi duga þó tæpast ein og sér til verndar umhverfinu. Umhverfisvernd er fyrst og síðast á ábyrgð ríkja og þeim ber að setja reglur og framfylgja þeim, til verndar þeim grunnréttindum sem MSE kveður á um.
    Höfundur telur það ekki skipta máli fyrir alþjóðlega viðurkenningu réttar til heilnæms umhverfis að hugsanlega eigi eftir að falla stefnumarkandi dómar sem varði þróun réttarins. Alþjóðleg viðurkenning réttar til heilnæms umhverfis hlýtur alla vega að verða til þess að virðing fyrir umhverfinu aukist og getur ekki annað en stutt við þá jákvæðu þróun sem átt hefur sér stað á vegum MDE.

Samþykkt: 
  • 5.9.2013
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/16394


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Þóra Jónsdóttir - Meistararitgerð - Réttur til heilnæms umhverfis.pdf989.32 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna