is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/16402

Titill: 
  • Lagahyggja og tengsl laga og siðferðis. Notkun siðferðilegra atriða og sjónarmiða sem réttarheimildar og við túlkun laga
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Vorið 2010 skilaði rannsóknarnefnd Alþingis skýrslu sinni um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008. Í siðferðishluta skýrslunnar, 8. bindi, verður vinnuhópi um starfshætti og siðferði oft tíðrætt um að gætt hafi svokallaðrar lagahyggju á sviði fjármálaréttar á Íslandi. Kjarni hugmyndarinnar er að aðferðafræði lögfræðinnar sé fremur tæknileg heldur en siðferðileg þannig að áhersla er lögð á texta lagaákvæða í stað tilgangs eða markmiða þeirra. Hugmyndin hlaut nokkra gagnrýni og andmæltu einhverjir henni meðal annars með að halda því fram að áhersla á lagatexta umfram tilgang laga væri í raun studd siðferðilegum rökum. Markmið ritgerðarinnar er að skoða nánar hvað felst í hugmyndinni um lagahyggju. Settar eru fram þrjár rannsóknarspurningar: (a) Ættu siðferðileg atriði og sjónarmið að vera gild réttarheimild? Ef svo er, með hvaða hætti er hægt að beita siðferðilegum atriðum og sjónarmiðum sem réttarheimild? Hvaða fræðilegu röksemdir styðja eða mæla gegn því? (b) Ætti að túlka lög með hliðsjón af siðferðilegum atriðum og sjónarmiðum? Ef svo er, með hvaða móti er hægt að beita siðferðilegum atriðum og sjónarmiðum við túlkun laga? Hvaða fræðilegu röksemdir styðja eða mæla gegn því? (c) Er áhersla á texta lagaákvæðis umfram tilgang þess studd siðferðilegum röksemdum þrátt fyrir að lagaákvæði sé andstætt siðferði, svo sem á grundvelli hugmynda um réttarríkið, aðgreiningu ríkisvalds og lýðræðis?
    Byrjað er á því í kafla 1.2 að kanna nánar hugmyndina um lagahyggju og þau andmæli sem hugmyndin hefur hlotið. Í kafla 2 er fjallað almennt um tengsl laga og siðferðis. Byrjað er á því í kafla 2.2 að fjalla almennt um siðfræði, siðferði og siðferðilega hugsun. Í kafla 2.3 er fjallað um þrjár stefnur innan réttarheimspeki er varða tengsl laga og siðferðis og spurninguna hvað séu lög, náttúrurétt, vildarrétt og lög sem túlkun. Í kafla 2.4 er fjallað um þrjár stefnur er varða dómstörf og spurninguna um hvernig komast eigi að niðurstöðu í lögfræðilegu álitamáli, lagalega formhyggju, lagalega raunhyggju og lagalega verkfærahyggju. Í kafla 3 er fjallað um þrjár undirstöðukenningar vestrænna réttarríkja, réttarríkið, aðgreiningu ríkisvalds og lýðræði. Í kafla 4 og 5 er síðan kannað með hvaða móti beita megi siðferðilegum atriðum og sjónarmiðum sem réttarheimild (kafli 4) og við túlkun laga (kafli 5).
    Í kafla 6 eru niðurstöður að lokum teknar saman og ræddar með hliðsjón af rannsóknarspurningum ritgerðarinnar. Meginniðurstaðan er sú að fræðilegar röksemdir mæla frekar með því að beita eigi siðferðilegum atriðum og sjónarmiðum sem réttarheimild og við túlkun laga. Auk þess var komist að þeirri niðurstöðu að aðferðafræði lögfræðinnar væri vel í stakk búin til að innihalda siðferðilega nálgun við úrlausn lagalegra álitaefna.

Samþykkt: 
  • 6.9.2013
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/16402


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Lagahyggja og tengsl laga og siðferðis (DHK).pdf1.34 MBOpinnMeginmálPDFSkoða/Opna
Forsíða.pdf105.55 kBOpinnKápaPDFSkoða/Opna