Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/16403
Ritgerð þessi fjallar um skáldskap Sigfúsar Daðasonar á fyrsta skáldskaparskeiði hans sem spannar árin 1945–1959. Athygli er beint að fyrstu ljóðunum sem birtust í ýmsum tímaritum og hugmyndaheimur tveggja fyrstu ljóðabóka skáldsins kannaður. Tekin eru til athugunar þrjú erlend skáld sem öll brutu blað í ljóðagerð heimalanda sinna, hvert með sínum hætti. Skáldskapur þeirra og hugmyndir eru bornar saman við ljóð Sigfúsar og rýnt í áhugaverða staði. Þetta eru skáldin Paul la Cour, Rainer Maria Rilke og Paul Éluard. Í ritgerðinni er sýnt fram á hvernig þessi skáld höfðu mótandi áhrif á kveðskap Sigfúsar, hugmyndaheim hans og lífsafstöðu, en jafnframt að hann vann á sjálfstæðan hátt úr þeim áhrifum. Í því sambandi er rætt um módernisma almennt og um súrrealisma sérstaklega, auk þess sem vikið er að heimspekilegum efnum, ekki síst metafýsík eða frumspeki sem Sigfús hreifst af á mótunarárum sínum. Þá er einnig fjallað um tengsl Sigfúsar við önnur íslensk samtímaskáld, hin svokölluðu atómskáld; um sameiginleg markmið þeirra og ágreining. Sigfús sker sig úr hópnum að því leyti að hann hafnar nær alveg hinni íslensku ljóðahefð. Pólitísk viðhorf hans og þróun stjórnmála í heiminum eru fléttuð inn í umfjöllunina enda var það honum keppikefli að tengja saman líf og list, ljóð og reynslu, skáldskap og sannleika. Sýnt er fram á að Sigfús var brautryðjandi í íslenskri ljóðagerð; að hið nýstárlega í kveðskap hans fólst bæði í endurskoðun efnis og forms.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
MA-ritgerð 2013 (3) - Guðbjörn.pdf | 480.37 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |