Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/16463
Á miðöldum var feðraveldi við lýði í Evrópu. Konur áttu að lúta vilja eiginmanna sinna, og voru álitnar þeirra eign. Kvenpersónur höfðu ekki mikla rödd í miðaldarbókmenntum, og höfundarnir voru í langflestum tilfellum karlmenn. Sagnfræðingar í dag vinna margir hverjir hörðum höndum við að kanna hlutverk kvenna í miðaldarbókmenntum, en þá verður að hafa í huga að hugtakið femínismi var ekki til á þeim tíma. Textar Chaucers hafa mikið verið rannsakaðir, bæði fyrr og síðar, með tilliti til hinna kvenlegu radda í verkum hans. Sú persóna, sem virðist standa þar upp úr, bæði fyrr og síðar, og þá ekki einungis í verkum Chaucers heldur miðaldarbókmenntum yfirleitt, er eiginkonan frá Bath úr Kantaraborgarsögum. Alison er óhrædd við að tjá sínar skoðanir og bjóða eiginmönnum sínum byrginn, í þeim tilgangi að öðlast völd yfir þeim sjálfum og eignum þeirra. Hún er þannig í uppreisn gegn feðraveldi samtíma síns, og alls ekki í takt við þau andfemínísku viðhorf sem ríktu gagnvart konum. Til þess að færa rök fyrir máli sínu vitnar hún óspart í ýmsa þekkta fræðimenn og rit þeirra, og vitnar jafnvel í sjálfa biblíuna. Hún túlkar textann á sinn hátt, svo að hann falli að hennar skoðunum. Afar óvenjulegt var á miðöldum að höfundar gæfu kvenmönnum eins mikla rödd og Chaucer gerir í gegnum Alison. Hún er í algjörri uppreisn gegn feðraveldinu, en notar í raun þeirra eigin rök gegn þeim, með því að vísa í bókmenntir þeirra. Í þessari ritgerð verður fjallað um þessar skoðanir Alisonar, og hvernig þær eru á öndverðum meiði við þær skoðanir sem ríktu í samfélagi feðraveldisins sem Chaucer lifði í. Fjallað verður stuttlega um femínisma og rannsóknir femínista á miðaldarbókmenntum, og með þeirri umfjöllun er leitast við að varpa ljósi á á hvaða hátt Alison er róttæk, og hversu óvenjuleg kvenpersóna hún er miðað við samtíma sinn.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Þóra-ritgerð.pdf | 187.87 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |