Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/16472
Í þessari ritgerð færi ég rök fyrir því að kenningar franska heimspekingsins Michels Foucault um vald, ásamt hugtakinu lífvald eigi við rök að styðjast og myndi gagnlega leið til þess að líta heiminn og greina. Eins skýri ég frá nánari útleggingum og framþróun á lífvaldshugtakinu og hugmyndum sem settar voru fram af franska heimspekingnum Gilles Deleuze—sem og notkun tvíeykisins Hardts og Negri á hugtökum Foucaults (og Deleuze) til að rýna í samfélagsbreytingar á ofanverðri tuttugustu öld.
Þrátt fyrir að túlka mætti greiningu Foucaults sem svartsýna mun ég færa rök fyrir því að ætlun hans hafi þvert á móti verið að skapa gagnleg tól til að streitast á móti og öðlast frelsi undan þeirri heimsmynd sem hann hann lýsir.
Ég mun halda því fram að áðurnefndur Deleuze ásamt samstarfsmanni sínum, sálgreinandanum Felix Guattari, ástundi í inngangskafla ritsins Þúsund flekar, „Rísóm“, gagnmerka rannsókn á því hvort hægt sé að beita hugtökum og heimspekilegum vopnum Foucaults gegn þeim heftandi valdakerfum sem hann segir gegnsýra heiminn. Vil ég meina að rísóm-hugtak þeirra sé tilraun til þess að fremja eins konar ítarlýsingu á valdatengingum og -mynstrum þeim er Foucault lýsir, og að þeir freisti þess jafnframt að rannsaka hvort flótti frá þeim alltumlykjandi veruleika sé yfirhöfuð mögulegur. Niðurstaða mín er sú að þeir kumpánar bendi á möguleika flóttalínunnar, en skilji þó lesandann eftir í vafa um hvort téðar flóttalínur veiti raunverulega lausn undan kapítalískum veruleika, eða hvort þær orki á endanum sem tímabundinn léttir—eins konar þrýstingsventill—sem styrkir hann á endanum og hjálpar til við að festa í sessi.
Að lokum leita ég svara við þessu síðastnefnda vafaatriði með því að skoða í ljósi áðurnefndra kenninga og greiningartóla menningarfyrirbæri sem einhverjum gæti þótt lítilvægt í samhengi þessara stóru spurninga: rokktónlist síðustu hálfrar aldar. Með lauslegu ágripi og yfirliti yfir sögu rokksins, með áherslu á þær kúvendingar sem það hefur gengist undir frá upphafi rökstyð ég að í krafti óheftrar rokktónlistar séu fólgnar rísómskar flóttalínur að hætti Deleuze og Guattari. Spurningunni hvort rokktónlist getur veitt raunverulega lausn, eða einungis tímabundna (og að endingu heftandi) ber ég að lokum undir greiningu þeirra heimspekinga sem ritgerðin einblínir á; Foucaults, Deleuze, Guattari, Hardt og Negri.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Lokaritgerd_HaukurSMagnusson.pdf | 429,04 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |