Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/16498
Óskar Ólason afi minn og áhugamálari, fæddist árið 1923, nánar tiltekið þann 13. apríl á Eskifirði. Hann lést árið 2010 og lét eftir sig fjöldann allan af málverkum, enda var listmálun hans ástríða í lífinu.
Draumur hans um að gerast atvinnumálari rættist eins og fyrr segir aldrei og fékk hann útrás fyrir litagleði og sköpun í starfi sínu. Óskar var augljóslega undir miklum áhrifum frá sínum samtímamönnum í listinni og fylgdist vel með því sem var að gerast í listheiminum þrátt fyrir að hafa aldrei reynt til fullnustu að komast inn í þann heim.
Í þessari ritgerð verður ferill Óskars sem áhugamálari skoðaður og borinn saman við aðra þekkta íslenska listamenn sem tókust á við svipuð viðfangsefni. Einnig verður fjallað um hvaða skil liggja á milli þekktra atvinnumálara og áhugamálara eins og Óskar var. Til þess að skilja þessa tvo hópa er litið til kenninga félagssálfræðinnar og hvernig þær skilgreina fólk í hópum. Félagslegur bakgrunnur Óskars verður því skoðaður í þessu samhengi og hvort það hafi haft áhrif á val hans um að feta ekki braut listmálarans. Í þessu samhengi verður aðallega litið til kenninga félagssálfræðingsins Arne Sjölund, sem setti fram kenningar um einstaklinga í hópum. Einnig verður litið til kenninga félagssálfræðingsins Georg H. Mead, sem setti fram kenningar um félagsmótun og félagslega sjálfið. Þá er einnig stuðst við flokkun félagssálfræðingsins Erik H. Erikson, sem skipti æviskeiðinu upp í átta stig. Í því samhengi eru þær skilgreiningar sem settar hafa verið fram um einfara og áhugalistamenn í myndlist skoðaðar og fjallað um hvort Óskar falli undir einhverjar ákveðnar skilgreiningar þar sem listamaður.
Í ritgerðinni verður síðan fjallað um hvernig áhugamálari eins og Óskar, sem lifði hvorki né hrærðist í listheiminum, varð fyrir áhrifum frá samtímamönnum sínum og þeim stefnum sem bárust hingað til lands. Gerð verður tilraun til að festa hendur á það hvernig hann túlkaði stefnur og myndefni á sinn eigin hátt. Til þess verða valin nokkur verk úr smiðjum Óskars sem mér þykja sýna þverskurð af listtúlkun hans. Verkin verða myndgreind og skipt niður í flokka eftir viðfangsefni.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
ErlaGisladottir_BA.pdf | 6.61 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |