is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > B.A./B.Ed./B.S. verkefni - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/16533

Titill: 
 • Endurskoðendaráð. Starfsemi og hlutverk
 • Titill er á ensku The Certified Public Accountants and Auditing Oversight Board (CPAAOB). Activities and role
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Endurskoðendaráð var stofnað í janúar 2009. Skipað er í ráðið til fjögurra ára í senn. Nú í ár lauk því fyrsta skipunartímabili ráðsins. Á þessu fyrsta starfstímabili hefur starfsemi ráðsins verið að mótast. Í kafla V í lögum nr. 79/2008, um endurskoðendur er fjallað sérstaklega um hvaða hlutverki það eigi að gegna. Á þessu fyrsta tímabili setti endurskoðendaráð sér t.d. starfsreglur eins og ofangreind lög kveða á um og voru þær birtar undir lok árs 2012. Endurskoðendaráði ber einnig samkvæmt lögum að setja sér reglur um framkvæmd gæðaeftirlits með störfum endurskoðenda og hafa nýjar reglur verið birtar árlega frá árinu 2009. Tilgangur þessarar ritgerðar er að skoða skipan og hlutverk endurskoðendaráðs eins og það er skilgreint samkvæmt lögum og fá fram afstöðu þeirra er láta sér málefni endurskoðenda varða hvort fyrirkomulagið eins og það er í dag henti best og hvað megi betur fara. Er það von mín að ritgerðin geti verið innlegg í þá umræðu.
  Ytra umhverfi endurskoðendaráðs hefur einnig breyst á þessum mótunarárum. Þegar endurskoðendaráð var stofnað árið 2009 heyrði það undir viðskiptaráðuneytið. Í október sama ár var efnahags- og viðskiptaráðuneytið stofnað og þar með var helstu verkefnum efnahagsmála komið undir eitt ráðuneyti. Í september 2012 var ráðuneytum fækkað úr tíu í átta. Þá sameinaðist efnahags- og viðskiptaráðuneytið og fjármálaráðuneytið í fjármála- og efnahagsráðuneytið. Á sama tíma fluttust verkefni sem tengjast fjármálamarkaði og sem áður heyrðu undir efnahags- og viðskiptaráðuneytið yfir til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, þar með talið endurskoðendaráð og verkefni þess. Í texta ritgerðarinnar er ávallt vísað til þess ráðuneytis sem fór með málefni endurskoðendaráðs á hverjum tíma.
  Ritgerðin skiptist í þrjá hluta en í þeim fyrsta er farið yfir starfsemi og skyldur endurskoðendaráðs samkvæmt lögum og þær reglur sem ráðið hefur sett sér. Auk þess eru ársskýrslur ráðsins reifaðar til að varpa ljósi á hvort starfsemi ráðsins sé í samræmi við lög. Farið er yfir gagnrýni á endurskoðendaráð sem birt hefur verið á opinberum vettvangi. Í öðrum hluta er viðtal við nefndarmann endurskoðendaráðs og í þriðja hluta er efnislegur úrdráttur úr viðtölum sem tekin voru við einstaklinga úr röðum endurskoðenda.
  Upphaflega var ákveðið að tala við tvo endurskoðendur frá endurskoðunarstofum þar sem starfandi eru fleiri en fimm endurskoðendur og tvo endurskoðendur frá stofum þar sem starfandi eru færri en fimm endurskoðendur. Í viðtalsferlinu kom fram sú hugmynd að fá afstöðu frá fulltrúa félags löggiltra endurskoðenda (hér eftir nefnt FLE) og var það gert. Þá óskaði annar endurskoðandinn frá minni endurskoðunarstofunum að fá að taka samstarfsmann sinn með í viðtalið, þar sem hann hafði sterkar skoðanir á endurskoðendaráði og var það auðsótt. Markmið með þessu vali er að varpa ljósi á það hvort skoðanir endurskoðenda á störfum endurskoðendaráðs tengjast því á einhvern hátt hversu stórri endurskoðunarstofu þeir koma frá.
  Viðtölin fóru fram í apríl til júní 2013 og voru öll hljóðrituð og síðan afrituð eins fljótt og mögulegt var eða á meðan viðtölin voru enn í fersku minni höfundar. Sá hluti ritgerðarinnar er lýtur að könnuninni hefur orðið til vegna hjálpsemi þeirra sem veittu viðtöl. Sú ábyrgð hvílir á höfundi ritgerðarinnar að koma sjónarmiðum þeirra á framfæri og eru niðurstöður rannsóknarinnar alfarið á ábyrgð höfundar. Um eigindlega rannsókn er að ræða og er markmiðið með henni að fá fram merkingu eða skilning þeirra er starfa að málefnum endurskoðenda á hlutverki og störfum endurskoðendaráðs. Ekki er hægt að alhæfa út frá niðurstöðum sem fengnar eru með þessum hætti yfir á stærri hóp heldur er markmiðið að veita dýpri innsýn í viðfangsefnið.
  Í lokin eru niðurstöður teknar saman og skoðanir sem fram koma í viðtölum við endurskoðendur og nefndarmann endurskoðendaráðs bornar saman þar sem við á.

Samþykkt: 
 • 18.9.2013
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/16533


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Hróar Örn Jónasson BS okt 2013.pdf599.78 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna