Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/16559
Viðfangsefni: Árangursmiðuð fjárhagsáætlunargerð er þekkt í rekstri ríkja og sveitarfélaga. Hún felur í sér útfærslu á stefnu í markmið og árangursmælikvarða, mælingar og eftirfylgni. Skýr markmið skulu liggja fyrir um árangur og mælikvarðar vel skilgreindir. Áhersla er lögð á söfnun og hagnýtingu upplýsinga og tengja saman úthlutun fjárheimilda og árangur. Markmiðið er að ráðstafa fjármagni í samræmi við pólitísk og samfélagsleg markmið, bæta nýtingu fjármagns, stuðla að hagkvæmni, gæðum, árangri og áreiðanleika í þjónustu og rekstri.
Rannsókn: Rannsóknin felur í sér að rýna aðferðafræði árangursmiðaðrar fjárhagsáætlunargerðar og kanna hvort hún geti nýst Reykjavíkurborg sem öflugt stjórntæki við fjármála- og árangursstjórnun. Rannsakað er út frá hlutverki borgarinnar, forgangsröðun fjárheimilda, fjárhagslegum stöðugleika og áhrifum á stjórnendur til árangurs. Áhersla er lögð á greiningu á hlutverki og skyldum í samræmi við sveitarstjórnarlög og áhrifum á viðfangsefnið.
Niðurstöður: Árangursmiðuð fjárhagsáætlunargerð getur hjálpað borginni að afmarka sig, stuðlað að áreiðanleika þjónustunnar og bætt markvirkni hennar og skilvirkni. Stjórntæki hennar styðja hins vegar ekki við markmið um fjárhagslegan stöðugleika í samræmi við markmið og fjármálareglur sveitarstjórnarlaganna. Helstu áhættur felast í efnahagssveiflum og lögskyldum þjónustukröfum. Niðurstöður rannsókna benda til að meginmarkmið um forgagnsröðun og ráðstöfun á fjármagni í samræmi við pólitískar áherslur og samfélagsleg markmið nái ekki fram að ganga. Sterkar vísbendingar fundust í erlendri rannsókn um að fjárhagslegur ávinningur geti verið af árangursmiðaðri fjárhagsáætlunargerð ef stjórnendur eru opinberalega látnir bera ábyrgð á árangri. Að öðru leyti hefur árangursmiðuð fjárhagsáætlunargerð takmörkuð áhrif á stjórnendur til árangurs og gefa rannsóknir til kynna andstöðu eða tregðu stjórnenda til samvinnu á því sviði. Niðurstöður eru á heildina litið þær að ekki er unnt að fullyrða með afgerandi hætti að innleiðing þessarar aðferðafræði leiði til ávinnings fyrir Reykjavíkurborg. Þrátt fyrir það hefur aðferðafræðin fjölmarga kosti sem gefa til kynna að hún geti nýst sem öflugt stjórntæki við fjármála- og árangursstjórnun ef rétt er á haldið.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Árangursmiðuð fjárhagsáætlunargerð hjá Reykjavíkurborg.pdf | 1,37 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |