Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/16602
Í þessari ritgerð sem unnin er til fullnustu BA–gráðu í Íslensku sem öðru máli frá Háskóla Íslands, verður sjónum beint að því hvernig nýta megi fjölgreindakenningu Howards Gardners til að hanna og þróa kennsluefni fyrir spænskukennslu í 8.–10. bekk. Gerð er grein fyrir efnistökum Aðalnámskrár grunnskóla sem gefin var út af Mennta– og menningarmálaráðuneytinu árið 2011. Tekið er mið af tilmælum hennar um markmið valgreina í grunnskóla, enda kveður námskráin á um að nota skuli fjölbreyttar kennsluaðferðir. Fjallað er um áhrif móðurmálsþekkingar á nám í erlendum tungumálum, um þróun lestrar og lesskilnings, ásamt því að sjónum er bein að námserfiðleikum. Því næst eru kenningar Howard Gardners ræddar og gerð grein fyrir fjölgreindakenningu hans sem skilgreinir átta mismunandi tegundir greindar. Hver þeirra er rædd stuttlega og tilgreind hvernig kennsluefni hentar til að þroska og þróa færni nemenda sem búa að margvíslegri samsetningu greinda. Tilgangur þessarar rannsóknar er að athuga hvort fjölgreindakenningin nýtist við kennslu á erlendu máli og hvernig námsefni byggt á þeim gæti verið. Í því skyni er settar fram kennsluleiðbeiningar í formi kennsluheftis og eru þær hugsaðar jafnt sem kennslubók og leiðarvísir fyrir kennara.
Meginmarkmið verkefnanna sem sett eru fram í kennsluheftinu er að nýta og bjóða upp á fjölbreytt námsefni sem krefst virkrar þátttöku og samvinnu nemenda. Að auki er kennsluefninu ætlað að nýtast sem góður grundvöllur fyrir fjörugar kennslustundir, enda stuðst við kennslutækni sem byggir á því að bæði nemendur og kennarar geti átt vel heppnaða spænskutíma. Lögð er sérstök áhersla á að kenna nemendum á grunnskólastigi fjölbreyttan orðaforða í töluðu og rituðu máli en leggja minni áherslu á eiginlega málfræðikennslu.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Vanessa G. Basáñez Escobar.pdf | 1.89 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |