Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/16624
Í verkefninu er leitast við að varpa ljósi á heimanám yngstu nemenda grunnskólans og einnig að fá álit kennara á heimanámi nemenda sinna. Í fyrri hluta verkefnisins er fjallað um heimanám á fræðilegan hátt. Fjallað um hvað felst í heimanámi nemenda, hver sé tilgangurinn með heimanámi og hver séu helstu markmið heimanáms. Mikilvægi foreldrasamstarfs er skoðað og einnig gerð grein fyrir kostum heimanáms sem og göllum þess. Í náminu í grunnskólakennarafræðum hefur mikilvægi lestrarnáms grunnskólanemenda verið ítrekað. Heimalestur nemenda er talinn mikilvægur og þykir nánast sjálfsagt að nemendur lesi heima á hverjum degi. Það var því einkum önnur heimavinna en lesturinn sem skoðuð var í þessari ritgerð, þó örlítið sé komið inn á lestur.
Í síðari hluta verkefnisins er gerð grein fyrir niðurstöðum úr viðtölum sem tekin voru við sex kennara sem kenna nemendum í yngstu bekkjum grunnskólans. Lagt var upp með að skoða heimanám yngstu barnanna, kanna hversu mikið heimanámið væri og hvað það væri helst sem nemendur væru að læra heima, þ.e. hvort einhverjar greinar væru látnar ganga fyrir í heimanáminu, fremur en aðrar. Kennararnir voru spurðir út í viðhorf foreldra til heimanámsins og hvort foreldrar lendi í vandræðum með heimanám barna sinna.
Helstu niðurstöður úr viðtölum eru að þeir kennarar sem rætt var við voru almennt ánægðir með heimanám nemenda sinna og þeim finnst að þeir sjái marktækan mun á námsgetu nemendanna vegna heimanámsverkefna. Margir kennarar nefndu að kostir heimanámsins væru tvímælalaust jákvæð samskipti milli heimila og skóla, ásamt aukinni skipulagshæfni nemenda sem fylgi þeim áfram út í lífið. Gallar heimanáms séu þó þeir að ekki hafi allir nemendur jöfn tækifæri til heimanáms á heimilum sínum, t.d. nemendur sem eru með annað móðurmál en íslensku, þar sem foreldrar þeirra geta ekki aðstoðað þá við heimaverkefni sökum þess að þeir skilji ekki íslensku.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Lokaritgerd.pdf | 371.43 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |