is Íslenska en English

Lokaverkefni

Háskóli Íslands > Verkfræði- og náttúruvísindasvið > Rannsóknarverkefni - Verkfræði- og náttúruvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/16747

Titill: 
  • Vaxtarrýmisgrunngildi kræklings (Mytilus edulis) á fjórum svæðum við Ísland
Útdráttur: 
  • Útlit er fyrir töluverða aukningu í skipaumferð á norðurslóðum þegar heimskautaísinn minnkar og siglingar á því svæði verða auðveldari. Einnig er líklegt að ónýttar olíu- og gasauðlindir í Norðurhafi og Norður-Íshafi verði nýttar í framtíðinni og má því búast við auknu mengunarálagi á norðurslóðum m.a. af völdum fjölhringja arómatískra kolefna (Polycyclic Aromatic Hydrocarbons; PAH) sem finnast í olíum og myndast við bruna á lífrænu eldsneyti. Því er mikilvægt að kanna grunnástand sjávarlífvera áður en til aukins álags kemur og afla jafnframt ítarlegri upplýsinga um áhrif olíusambanda á sjávarlífverur.
    Rannsóknirnar fóru fram í nóvember 2011 á Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Suðurnesjum í Sandgerði. Vaxtarrými (Scope for growth; SFG) var metið hjá kræklingi (Mytilus edulis) í þeim tilgangi að mæla grunngildi vaxtarrýmis hjá kræklingi frá ólíkum svæðum við Ísland og ennfremur til að kanna hugsanlegt álag á sjávarlífverur af völdum mengunar. Kræklingi var safnað á þremur stöðum fjarri höfnum (Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi, Álftafirði á Vestfjörðum og Mjóafirði á Austurlandi) og einum stað þar sem gert var ráð fyrir PAH mengun og álagi á krækling (Ísafjarðarhöfn á Vestfjörðum).
    Kræklingur frá hreinu svæðunum Álftafirði og Mjóafirði mældist með hæstu vaxtarrýmisgildin og reyndust þau marktækt hærri en hjá kræklingi úr Ísafjarðarhöfn og frá Bjarnarhöfn. Ekki var marktækur munur á milli kræklings sem safnað var úr Ísafjarðarhöfn og kræklings frá Bjarnarhöfn og virðist kræklingur úr Ísafjarðarhöfn því betur á sig kominn en vænta mátti. Að líkindum má rekja það til mikils fæðuframboðs sem gæti skýrt meira þol gagnvart mengandi efnum í umhverfinu.
    Mat á vaxtarrými getur verið gagnleg aðferð til að meta álag af völdum mengunar sem lífverur búa við. Í þessum rannsóknum kom í ljós að mat á vaxtarrými kræklings frá ólíkum svæðum við Ísland dugar ekki eitt og sér til þess að greina mengunarálag. Líklegt er að ólíkar umhverfisaðstæður á svæðunum (skýldar aðstæður, fæðuframboð og mörk flóðs og fjöru), sem endurspeglast í mismunandi ástandsstuðlum dýranna, útskýri ólík vaxtarrýmisgildi óháð mengunarálagi.

Styrktaraðili: 
  • Verkefnasjóður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, deild um sjávarrannsóknir á samkeppnissviði, styrkti verkefnið og fær þakkir fyrir stuðninginn.
Samþykkt: 
  • 15.10.2013
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/16747


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
ritgerd1310019AO.pdf1,23 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna