Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/16852
Margt breyttist í hinu alþjóðlega samfélagi þann 11.september 2001. Eftir að heimurinn horfði í beinni útsendingu á stærstu hryðjuverkaárás sögunnar vissu stjórnvöld að nú yrði að bregðast skjótt við. Bandaríkjastjórn vissi að Osama bin Laden væri ábyrgur fyrir árásunum og að hann héldi sig til hlés í Afganistan. Með alþjóðlegum ályktunum frá Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna fengu Bandaríkin leyfi til að ráðast inn í Afganistan árið 2001 og svo loks inn í Írak árið 2003 og „stríðið gegn hryðjuverkum“ hófst. Hér á eftir verður skoðað hvort Bandaríkin hafi nýtt sér yfirburðastöðu sína innan alþjóðasamfélagsins til að réttlæta innrás í Írak og Afganistan eftir árásirnar 11. september. Til að svara spurningunni þótti höfundi mikilvægt að skoða gróflega forsögu alþjóðasamskipta og tvær helstu kenningar greinarinnar, raunhyggju og frjálslyndisstefnuna. Eftir þann fræðikafla mun höfundur greina frá deginum sem breytti heiminum, eða 11. september 2001. Fyrstu dagarnir þar á eftir verða raktir og réttlætingar Bandaríkjanna fyrir gagnárás skoðaðar. Að lokum verður farið yfir ferlið frá því að Bandaríkin fengu leyfi til sjálfsvarnar þar til að þeir réðust inn í Afganistan og Írak. Er það skoðun höfundar að Bandaríkin hafi notfært sér yfirburðastöðu sína eftir árásirnar. Samkvæmt raunhyggjunni er máttur og vald mjög mikilvægur þáttur alþjóðarsamfélagsins og Bandaríkin sýndu klárlega mátt sinn við innrásirnar í Afganistan og Írak. Þó notuðu þau fyrst og fremst yfirburðastöðu sína innan alþjóðasamfélagsins til að endurmeta lög og beygja ályktanir til að fá samþykki til sjálfsvarnar. Bandaríkin gátu ráðist inn í Afganistan í skjóli sjálfsvarnar vegna árásarhneigðar, en auðvelt er að áætla að þau hafi hlotið þann rétt vegna hernaðarlegra yfirburða sinna á alþjóðavísu.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Dagurinn sem breytti heiminum BA-ritgerð (1).pdf | 1.12 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |