Please use this identifier to cite or link to this item: https://hdl.handle.net/1946/16887
Í ritgerð þessari er fjallað um ábyrgð stjórnenda hlutafélaga með áherslu á ábyrgð framkvæmdastjóra. Markmið hennar er að gera grein fyrir því hvaða ábyrgð er lögð á stjórnendur í störfum þeirra og hvort lög og reglur séu nægilega skýr hvað slíka ábyrgð varðar. Í lögum um hlutafélög er kveðið á um lögbundið stjórnkerfi þar sem stjórn og framkvæmdastjóri skulu fara með stjórn félagsins. Eitt af meginmarkmiðum laganna er að mæla fyrir um hlutverk, réttindi og skyldur þessara aðila innan hlutafélaga og má af þeim sjá að stjórn er ótvírætt valdamesta stjórnareining hlutafélags. Er henni ætlað að fara með yfirstjórn, stefnumótun félagsins og hafa almennt eftirlit með því að rekstur þess sé í góðu horfi, en framkvæmdastjóra ber að sjá um daglegan rekstur og þær ráðstafanir sem undir hann falla. Verði stjórnendur uppvísir að því að brjóta gegn þeim skyldum sem á þeim hvíla eða fara út fyrir starfshlutverk sitt getur það varðað þá veigamikilli ábyrgð. Er þar annars vegar um að ræða skaðabótaábyrgð og hins vegar refsiábyrgð. Í skaðabótaábyrgð felst að stjórnendur eru skyldugir til að bæta félaginu, hluthöfum þess eða öðrum það tjón sem þeir hafa valdið í störfum sínum. Við ákvörðun bótaskyldu er strangt sakarmat stjórnenda lagt til grundvallar og almennar skaðabótareglur, þ.e. að ríkar kröfur eru gerðar til tjónþola um að sýna þurfi fram á að tjón hafi orðið og að það megi rekja til háttsemi stjórnandans. Sömu sjónarmið eru alla jafna lögð til grundvallar við mat á bótaskyldu framkvæmdastjóra og stjórnarmanna. Þegar að refsiábyrgð kemur gildir sú meginregla að engum verði refsað nema samkvæmt heimild í lögum og að ótvíræð sönnun liggi fyrir um brotlegt athæfi. Refsiábyrgð framkvæmdastjóra snýr að mestu að þeim daglegu athöfnum sem hann ber ábyrgð á og er þá helst um að ræða skil á vörslusköttum. Í tilfelli stjórnar verður helst lögð refsiábyrgð á hana ef hún er talin hafa vanrækt eftirlitshlutverk sitt. Eftir að hafa farið stuttlega í gegnum þær skyldur og þá ábyrgð sem hvíla á stjórnendum hlutafélaga í dönskum og breskum rétti er niðurstaðan sú að þær skyldur, sem ábyrgð stjórnenda miðast við, eru ekki fyllilega skýrar í lögum hér á landi og með hliðsjón af breskum rétti mætti útlista þessar skyldur með betri hætti í lögunum. Talið var að breyta mætti lítillega þeim ákvæðum sem kveða á um skaðabótaábyrgð með því að afnema það skilyrði að bótaréttur annarra en félagsins skuli takmarkaður við brot á hlutafélagalögum og í refsingarákvæði laganna mætti bæta inn ákvæði þar sem vísað væri til þess að tilgreindir aðilar gætu einnig hlotið refsingu eftir ákvæðum ýmissa sérlaga. Ennfremur var talið að innleiða mætti í lögin ákvæði um skuggastjórnendur og að hægt væri að leggja ábyrgð á slíka aðila.
Filename | Size | Visibility | Description | Format | |
---|---|---|---|---|---|
Ritgerd_lokaskil.pdf | 1,01 MB | Locked Until...2060/09/01 | Heildartexti |