Please use this identifier to cite or link to this item: https://hdl.handle.net/1946/168
Staðreynd er að öldruðum fjölgar og hlutfall þeirra af mannfjölda fer hækkandi. Stefna íslenskra stjórnvalda er að stuðla að því að eldri borgarar geti búið heima sem lengst. Iðjuþjálfar erlendis hafa lengi starfað innan heilsugæslunnar og unnið með eldri borgurum sem búa heima en á Íslandi hefur þessi þróun verið hægari. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna hvort eldri borgarar, sem búa heima á þjónustusvæði Heilsugæslunnar í Reykjavík, upplifðu breytingu á færni við iðju við íhlutun iðjuþjálfa á heimilum sínum. Auk þess var leitað svara við því hvaða viðfangsefni eldri borgararnir tilgreindu helst sem iðjuvanda og hvaða iðjuvanda þeim fannst mikilvægast að vinna með. Í rannsókninni var beitt megindlegri aðferðafræði og rannsóknarsniðið var hálftilraun. Þátttakendur voru valdir út frá markmiðsúrtaki. Þeir voru 24 eldri borgarar, 67 ára og eldri, og var færnivandi þegar til staðar. Matstækið Mæling á færni við iðju var notað, en það er hannað út frá skjóstæðingsmiðaðri nálgun. Alls tóku 19 þátttakendur þátt í endurmati. Notuð var lýsandi tölfræði við framsetningu niðurstaðna. Niðurstöðurnar sýndu að 81% þátttakenda upplifði bætta frammistöðu við framkvæmd iðju sem skipti máli og 76% upplifðu meiri ánægju með frammistöðu sína. Flestir tilgreindu iðjuvanda innan flokksins Eigin umsjá og völdu aðallega að vinna með þætti innan þess flokks. Við endurmat var þjónustu iðjuþjálfa ólokið hjá helmingi þátttakenda og sýndi það nauðsyn eftirfylgdar. Niðurstöður rannsóknarinnar geta vakið eldri borgara og heilbrigðisstéttir til umhugsunar um þörf eldri borgara fyrir greiðari aðgang að þjónustu iðjuþjálfa í heilsugæslu.
Lykilhugtökin eru: Skjólstæðingsmiðuð nálgun, eldri borgarar sem búa heima, iðjuþjálfun í heilsugæslu, matstækið Mæling á færni við iðju.
Filename | Size | Visibility | Description | Format | |
---|---|---|---|---|---|
mateldri.pdf | 12.19 MB | Open | Mat eldri borgara á færni við iðju - heild | View/Open |