is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Hugvísindasvið > B.A. verkefni - Hugvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/16984

Titill: 
 • Fyrirheitna landið. Upphaf Kirkju Jesú Krists hinna síðari daga heilögu og leið hennar til Íslands
Námsstig: 
 • Bakkalár
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
 • Kirkja Jesú Krists hinna síðari daga heilögu er ein af mörgum trúarhópum innan kristninnar. Í þessari lokaritgerð í djáknanámi mínu frá Háskóla Íslands mun ég skoða af hverju þeir urðu sú fjöldahreyfing sem þeir urðu. Á 19. öldinni varð einskonar uppgjör eftir Napóleonsstyrjaldirnar í Evrópu og mikil upplausn í samfélaginu bæði í Bandaríkjunum og Evrópu og komu margar trúarhreyfingar þar fram. Á þessum tíma voru einnig miklir fólksflutningar til Bandaríkjanna og eins og annað sem fylgir fólki bárust margvíslegar nýjar trúarhreyfingar og hugmyndir með þeim frá Evrópu til Bandaríkjanna, flestar byggðar á kristinni menningarhefð. Margir voru leitandi að betra lífi hér á jörðu og aukinni lífsfyllingu. Það var einskonar leit að fyrirheitna landinu. Einn af þeim sem var í þessari leit var Joseph Smith sem var unglingur á þessum tíma og varð upphafsmaður Kirkju Jesú Krists hinna síðari daga heilögu eða mormóna eins og fylgismenn hans eru jafnan nefndir.
  Margar þær hugmyndir sem koma fram í mormónatrúnni eiga rætur sínar að rekja í dultrúarstefnur sem forfeður Josephs Smiths þekktu og samsömuðu sig með en hann virðist hafa svarað ýmsum spurningum sem fólk spurði á þessum tíma og veitt því útskýringar sem höfðu þýðingu fyrir það eins og til dæmis hverjir frumbyggjar Ameríku væru. Einnig lagði hann mikla áherslu á fjölskylduna og varð hún að einu af grunngildum trúarhugmyndanna en upp frá þeim spratt hugmyndin um fjölkvænið. Það eru margar spurningar sem vakna þegar maður les um mormónatrú, til dæmis hvernig hún festist í sessi. Skipti tíminn máli og staða fólks almennt í samfélaginu? Kirkja mormóna var ein af fáum trúarhópum sem kom fram með viðbót við Biblíuna, það er að segja nýja bók sem er álitin jafn heilög og Biblían sjálf og er það Mormónsbók. Síðar bættu mormónar við ritningunum Hinni dýrmætu perlu og Kenningum og sáttmálum sem varða líf, störf og opinberanir upphafsmannsins Josephs Smiths. Eða var kannski Joseph Smith náðarvaldsleiðtogi og hjálpaði það honum að safna að sér fylgismönnum? Eða var þetta blanda af þessu öllu?
  Ég mun skoða hverjar séu meginskýringarnar á fylgi trúarhreyfingarinnar á upphafsárum hennar og hvað það hafi verið sem fékk fólk til að samþykkja að Joseph Smith væri nýr spámaður og opinberanir hans raunverulegur sannleikur. Jafnframt mun ég ræða um stöðu kvenna í þessari nýju hreyfingu, sérstaklega í ljósi þess að fjölkvæni var leyft á upphafsdögum kirkjunnar. Í því sambandi velti ég upp spurningunni hvort fjölkvæni hafi skipt máli fyrir útbreiðslu mormónstrúarinnar? Loks mun ég horfa til Íslands, þ.e. hvernig staðið hafi á því að þessar hugmyndir, sem voru svo ólíkar því sem Íslendingar áttu að venjast, hafi náð til þeirra, eyju svona langt í norðri? Hvers vegna gerðust fjöldi Íslendinga mormónar á síðari hluta 19. aldar og fluttust vestur um haf til fyrirheitnu paradísarinnar í Utah? Var það kannski loforðið um fyrirheitna landið sem heillaði þetta fólk sem bjó sjálft við sárustu fátækt?
  Til að svara ofangreindum spurningum mun ég í fyrsta kafla byrja á að skoða félagsfræðilegar kenningar um af hverju fólk gengur til liðs við trúarhreyfingar, hvað trúskipti séu og af hverju þau eigi sér stað. Innan þess kafla mun ég skoða hlutverkakenningu Hjalmars Sundén, Loftland og Stark módelið, Bromley og Shupe módelið auk skrifa Karls Marx og Max Webers um náðarvaldsleiðtoga. Í öðrum kafla mun ég fjalla um sögulegan bakgrunn Kirkju Jesú Krists hinna síðari daga heilögu. Þar mun ég skoða Joseph Smith og sýnir hans, tilurð Mormónsbókar, boðun boðskapsins og móttökurnar við honum. Þá mun ég sérstaklega fjalla um stöðu kvenna á upphafsárunum og átök sem áttu sér stað um fjölkvænið í Bandaríkjunum sem að nokkru eru samofin sögulegu upphafi mormóna. Síðasti kafli meginmálsins ber heitið „Mormónatrú berst til Íslands“. Í þeim kafla mun ég skoða hvernig mormónatrú barst til Íslands og hverjir voru fyrstu íslensku mormónarnir. Leitast verður við að skilja hvað það var sem heillaði Íslendinga og mun ég sérstaklega skoða hann Eirík á Brúnum sem var gerður ódauðlegur í verki Halldórs Laxness Paradísarheimt.4 Sú bók fjallar einmitt um velstæðan bónda á Íslandi sem kynnist mormóna og flytur til Utah eða fyrirheitna landsins. Spyrja má hvort saga hans sé týpísk saga Íslendings á þessum tíma? Var það aðallega fyrirheitna landið sem náði til eyrna hans og annars fólks? Umfjöllun kaflans lýkur svo á því að fjalla um mormóna á Íslandi í dag. Í lokin eru svo niðurstöðukafli þar sem dregnar verða saman helstu niðurstöður ritgerðarinnar út frá þeim kenningum sem fjallað var um í fyrsta kafla.

Samþykkt: 
 • 3.1.2014
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/16984


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
BA verkefni Kristbjörg.pdf483.36 kBOpinnPDFSkoða/Opna