is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/16995

Titill: 
  • Að eiga barn í sameign. Rök með og á móti því að lögfesta ákvæði um jafna búsetu
  • Titill er á ensku To have a child in partnership. Arguments for and against enacting a provision of equal residence
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Mikil umræða hefur átt sér stað í samfélaginu um búsetu barns þegar foreldrar barns búa ekki saman. Umræðan hefur fyrst og fremst snúist um muninn á réttarstöðu lögheimilisforeldra og umgengnisforeldra. Lögheimilisforeldrið hefur ríkari rétt til að taka ákvarðanir um málefni barns og hefur réttarstöðu einstæðs foreldris þegar kemur að innheimtu og móttöku meðlags. Þá hefur sérstaklega verið nefnt að ýmis opinber stuðningur fyrir barn miðist eingöngu við lögheimili barns og renni alfarið til lögheimilisforeldris. Í umræðunni hafa því heyrst raddir sem gera kröfu um barn geti átt tvö formleg heimili með einhverjum hætti en sumar hafa gengið svo langt að krefjast þess að barn geti átt tvö lögheimili.
    Í ritgerðinni er leitast við að gera grein fyrir búsetu barns í barnarétti og helstu réttaráhrifum sem fylgja búsetu barns þegar foreldrar barns búa ekki saman. Er það gert í þeim tilgangi að skoða hvort þörf sé á því að breyta reglum um búsetu barns og þá hvort ákvæði um jafna búsetu gæti komið til skoðunar. Ekki er skoðað hvort lögfesta eigi ákvæði um tvöfalt lögheimili heldur einungis hvort rök standi til þess að lögfesta sérstakt ákvæði í barnalögum um jafna búsetu eins og framkvæmdin hefur verið í Noregi og Svíþjóð.
    Í upphafi er farið yfir stöðu barna og foreldra þegar foreldrar barns búa ekki saman. Farið er yfir þróun sjónarmiða varðandi samband barna og foreldra og hvernig sú þróun hefur endurspeglast í löggjöfinni. Gerð er grein fyrir þeim meginreglum sem gilda um samband barns og foreldra og grundvallarreglunni um það sem barni er fyrir bestu. Þá er gerð grein fyrir helstu rannsóknum sem framkvæmdar hafa verið á stöðu barna eftir skilnað og sambúðarslit foreldra. Því næst er fjallað nánar um hugtakið búseta barns í barnarétti. Samhliða því er einnig gerð grein fyrir hugtökunum forsjá og umgengni til aðgreiningar frá hugtakinu búseta barns. Jafnframt er fjallað er nánar um lögheimili barns og gerð grein fyrir hugtakinu jöfn búseta eins og það hefur verið afmarkað í Noregi og Svíþjóð. Þá er gerð grein fyrir helstu réttaráhrifum búsetu barns þegar foreldrar barns búa ekki saman. Gerð er grein fyrir því hvernig verkaskiptingu foreldra er háttað í lögum og dregin fram sú staða sem lögheimilisforeldri hefur til töku afgerandi ákvarðana í lífi barns. Því næst er gerð grein fyrir þeim reglum sem gilda um framfærslu barns og hvernig búseta barns afmarkar réttarstöðu foreldra að því leyti. Þá er gerð grein fyrir opinberum stuðningi til foreldra og hvaða áhrif búseta barns hefur í þeim efnum. Í þeirri umfjöllun er jafnframt kannað með hvaða hætti æskilegt sé að breyta reglunum án þess að hróflað verði við fyrirkomulaginu um búsetu barns. Í lokin er leitast við að svara þeirri spurningu hvort lögfesta eigi ákvæði um jafna búsetu.

Samþykkt: 
  • 6.1.2014
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/16995


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Rakel Þráinsdóttir.pdf1.2 MBLokaður til...06.01.2034HeildartextiPDF