Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/17001
Ritgerðin er á sviði vinnuréttar, en hann greinist í tvö svið. Annað sviðið lýtur að ráðningarrétti, og hitt sviðið er vinnumarkaðsréttur sem tekur til samskipta aðila á vinnumarkaði, kjarasamninga og vinnudeilna. Efni ritgerðarinnar fellur undir svið vinnumarkaðsréttar, en til umfjöllunar er friðarskylda á íslenskum vinnumarkaði. Friðarskyldan byggir á þeirri reglu að samninga skuli halda, og fyrir vinnumarkaðinn felur friðarskyldan í sér að þegar kjarasamningar eru komnir á skuli ekki fara í vinnustöðvun til að knýja á um breytingar á gildandi og gildum kjarasamningi milli aðila. Friðarskyldan er þannig bæði eftirsóknarverð fyrir atvinnurekendur sem og launþega. Atvinnurekendum tryggir hún frið á meðan samningar gilda, og launþegum tryggir hún ákveðið öryggi hvað varðar hlunnindi, greiðslur og önnur atriði sem kjarasamningur tryggir þeim.
Fyrir flesta aðila samfélagsins skipta reglur á vinnumarkaði máli. Fjöldinn allur af Íslendingum byggir sinn ráðningarsamning á kjarasamningum. Kjarasamningar og réttaráhrif þeirra snerta því líf margra Íslendinga dagsdaglega. Friðarskyldan er eftirsóknarverð afleiðing kjarasamninga og áhugavert að skoða hvernig hún birtist á íslenskum vinnumarkaði.
Fyrsti hluti ritgerðarinnar er um umhverfi friðarskyldu en annar og þriðji kafli ritgerðarinnar fjalla um hið lagalega umhverfi friðarskyldu, og eru lög nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur og lög nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna sérstaklega tekin til umfjöllunar. Friðarskyldan sem slík er ekki lögleidd, hún er óskráð meginregla vinnuréttar, en á sér hins vegar stoð í ákvæðum laga nr. 80/1938. Fjórði kafli er um kjarasamninga. Þar sem friðarskylda byggir á kjarasamningum er talin þörf á stuttri umfjöllun um þá, uppbyggingu og túlkun kjarasamninga.
Í öðrum hluta ritgerðarinnar er fjallað um grundvöll friðarskyldu. Í fimmta kafla er fjallað um forsendur friðarskyldu, umfang hennar, hvenær hún er ekki til staðar og brottfall hennar. Sjötti kafli ritgerðarinnar fjallar um á hverjum friðarskyldan hvílir og sjöundi kafli fjallar um ábyrgð vegna brota á henni.
Þriðji og síðasti hluti ritgerðarinnar tekur til hvernig friðarskyldan birtist í framkvæmd en friðarskyldan sem og aðgerðir í andstöðu við hana eru efni áttunda kafla. Í þeim kafla er sérstaklega fjallað um yfirvinnubann sem og aðrar aðgerðir sem eru í andstöðu við friðarskyldu. Níundi kafli ritgerðarinnar er um undantekningar frá friðarskyldu, við hvaða aðstæður það er heimilt að fara í vinnustöðvun án þess að um rof á friðarskyldu sé að ræða. Efni tíunda kafla er síðan erlendur réttur. Í þeim kafla verður fjallað stuttlega um friðarskylduna í þremur löndum: Danmörku, Noregi og Þýskalandi. Að lokum er ellefti kafli sem er niðurlagskafli, en í honum eru helstu atriði ritgerðarinnar dregin saman.
Rétt er að minnast á nokkur almenn atriði er varða aðferðafræði í ritgerðinni. Ekki eru notaðar skammstafanir fyrir lögin, heldur eingöngu númer laganna sjálfra notuð. Sem dæmi, lög nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur eru einfaldlega lög nr. 80/1938.
Fyrir Félagsdómi eru það yfirleitt heildarsamtök sem sækja mál fyrir aðildarfélög sín, sbr. 1. mgr. 45. gr. laga nr. 80/1938 þar sem segir að sambönd verkalýðsfélaga og atvinnurekendafélag reki fyrir hönd meðlima sinna mál fyrir Félagsdómi. Að auki er heimild til handa félögum sem ekki eru meðlimir sambandanna eða fyrir ófélagsbundna aðila að reka málið sjálf fyrir Félagsdómi, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 45. gr. laganna. Hjá hinu opinbera er fyrirsvari þannig háttað að í 4. mgr. 27. gr. laga nr. 94/1986 segir að viðkomandi heildarsamtök stéttarfélaga reki mál sín og félagsmanna sinna fyrir Félagsdómi og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs fyrir ríkið sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 94/1986, en hvað varðar sveitarfélögin fara sveitarstjórnir með fyrirsvar síns sveitarfélags sbr. 4. mgr. 3. gr. laga nr. 94/1986. Tekin var sú ákvörðun að tilgreina í þessari ritgerð þá aðila sem áttu í deilum, ekki heildaraðildarfélögin.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Meistararitgerð.pdf | 529.81 kB | Lokaður til...01.03.2040 | Meginmál | ||
Guðrún Sóley Gunnarsdóttir.pdf | 37.4 kB | Opinn | Forsíða | Skoða/Opna | |
Titilsíða.pdf | 80.92 kB | Opinn | Titilsíða | Skoða/Opna |