Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/17046
Í ritgerð þessari er greint frá aðdraganda íslenskra stjórnvalda að undirritun fríverslunarsamninga við Fríverslunarsamtök Evrópu, EFTA árið 1970 og Evrópska efnahagssvæðið, EES árið 1994 ásamt því sem könnuð eru áhrif þeirra á heildarútflutning 1960–1980 og 1984–2004. Athuguð eru möguleg áhrif aðildar Íslands að Evrópusambandinu á sjávarútveg, útflutning og hagvöxt. Auk þess er kannað samspil útflutnings og hagvaxtar á tímabilunum 1960–1980, 1984–2004 og 1992–2012.
Fyrst er gerð grein fyrir samningi Íslands við EFTA og sérstaklega skýrt frá bókun 6, sem var helsti ávinningur Íslands af samningnum. Útflutningur til EFTA minnkaði árið 1973 í kjölfar þess að helstu viðskiptalönd Íslands, þ.e. Bretland, Írland og Danmörk, gengu úr EFTA og í EBE þetta sama ár. Viðskipti héldu áfram við fyrrgreind lönd en á verri viðskiptakjörum en áður. Engu að síður má draga þá ályktun að EFTA‐samningurinn hafi verið afar hagstæður og stuðlað að auknum útflutningi vegna þess að bókun 6 var notuð sem grunnur þegar samið var um lækkun eða niðurfellingu tolla á fiskafurðum í samningaviðræðum okkar við EES með bókun 9.
Áhrif EES‐samningsins á heildarútflutning gefa vísbendingu um að útflutningur hafi aukist í kjölfar samningsins en þessa aukningu má einnig rekja til breyttrar gengisstefnu.
Auk þess er skýrt frá tildrögum Evrópusambandsins og könnuð áhrif aðildar Íslands að ESB. Unnið var út frá sex skýrslum sem gerðar voru á árunum 2000–2013. Greint er frá sameiginlegri fiskveiðistefnu ESB og ákvarðanaferli um fiskveiðikvóta stefnunnar.
Samkvæmt niðurstöðum skýrsluhöfunda verða að öllum líkindum engar undanþágur veittar frá sameiginlegri fiskveiðistefnu sambandsins og því munu Íslendingar missa stjórn á fiskveiðiauðlindinni ef þeir ganga í ESB.
Að lokum er greint frá útflutningi sem hlutfalli af landsframleiðslu á ofangreindum tímabilum, sem lýsir meðal annars sambandi útflutnings og hagsveiflna en það lækkaði þegar kreppti að og hækkaði þegar hagvöxtur jókst, sem lýsir þróun á viðskiptakjörum og útflutningi okkar.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Gudjon G. rétt lokaeintak 01.08.pdf | 10,44 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |