Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/17047
Markmið þessarar ritgerðar er að meta nýja eiginfjárkröfu fyrir íslenska banka. Eiginfjárkröfur íslenskra banka taka mið af Basel II staðlinum sem gefinn er út af Basel- nefndinni. Grunnkrafan er 8% og miðast hún við 99,9% öryggisbil á að banki fari ekki í þrot. Viðmiðið hjá Basel-nefndinni er alþjóðlegur banki sem hefur vel dreift eignasafn. Ætla má að krafan þyrfti að vera hærri hér á landi vegna samþjöppunaráhættu sem mögulega er til staðar hér á landi.
Sett eru upp tvö mismunandi líkön til að greina hvaða hagstærðir það eru sem hafa áhrif á afkomu banka á Íslandi og hjá alþjóðlegum banka. Við mat á alþjóðlegum banka eru notuð gögn frá öllum bönkum á evrusvæðinu. Til að meta nýju eiginfjárkröfuna eru staðalfrávikin úr líkönunum borin saman og hlutfallið þar á milli notað við útreikning á kröfunni. Fjallað er sérstaklega um samþjöppunaráhættu og þau tæki sem eru til staðar til að mæla hana.
Helstu niðurstöður úr greiningunni á því hvaða hagstærðir hafa áhrif á afkomu banka er að hagvöxtur var ómarktækur í flestum niðurstöðum og að breyting á hlutabréfamarkaði hafði töluverð áhrif, en íslensku bankarnir voru afar stór hluti af hlutabréfamarkaðnum á árunum fyrir hrun. Breyting á markaðsvirði fyrirtækja hafði einnig áhrif. Langtímavextir, skammtímavextir og vaxtamunur voru í báðum líkönum marktæk og höfðu veruleg áhrif.
Niðurstöður fyrir nýja eiginfjárkröfu eru að tvisvar til fjórum sinnum hærri eiginfjárkrafa þyrfti að vera á Íslandi en hjá alþjóðlegum banka eða á bilinu 18 – 32%. Óumdeilanlegt er að sveiflur hjá íslenskum bönkum eru meiri og dýpri en hjá alþjóðlegum banka og það að eiginfjárkrafan þurfi að vera hærri hér á landi. Þó eru fleiri atriði sem þarf að hafa í huga en eiginfjárkrafan við mat á fjármálastöðugleika og fleiri atriði tilgreind í lok ritgerðar.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Ritgerð með forsíðu_loka.pdf | 4,14 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |