Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/17103
Þessi ritgerð er lokaverkefni höfundar til BA prófs í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands og fjallar um heimilislausa á Íslandi. Markmið ritgerðarinnar er að kanna umfang heimilisleysis og þá þjónustu sem í boði er fyrir heimilislausa ásamt ábyrgð og stefnumótun sveitafélaga annarsvegar og ríkisins hinsvegar. Til þess að skoða þessi markmið eru settar fram eftirfarandi rannsóknarspurningar: Hvað er heimilisleysi og hvert er umfang þess á Íslandi? Hvaða þjónusta er í boði fyrir heimilislausa og eru gistiúrræðin næg? Hver er stefnumótun sveitafélaga og ríkis í málefnum heimilislausra og hver ber ábyrgð á málaflokknum? Hvert er hlutverk félagsráðgjafa í málefnum heimilislausra á Íslandi?
Ritgerðin byggir á fjölbreyttum rituðum heimildum og frumgögnum s.s. lögum, upplýsingaefni frá stofnunum og opinberum gögnum þ.m.t skjölum um stefnu í málaflokknum. Þar sem mjög takmarkaðar upplýsingar eru fyrir hendi um málaflokkinn á Íslandi var gagna einnig aflað með upplýsingaviðtölum við fagaðila.
Helstu niðurstöður eru að fjölgað hefur í hópi heimilislausra á Íslandi. Gistiúrræðin
anna ekki eftirspurn og því er þörf á frekari úrræðum. Niðurstöður sýna einnig að þörf er fyrir skýrari stefnu yfirvalda í málaflokknum og einstaklingsmiðaða nálgun. Þjónusta við heimilislausa er nær eingöngu að finna í Reykjavík og lítið er um sérhæfð úrræði eða stefnu í málaflokknum hjá öðrum sveitafélögum. Í Reykjavík er þjónustan eingöngu ætluð þeim sem eiga þar lögheimili og er kostuð af borginni og hjálparsamtökum. Félagsráðgjafar vinna víða með málefni heimilslausra en aðeins tveir félagsráðgjafar vinna eingöngu við þjónustu og úrræði fyrir heimilislausa.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Heimilislausir á Íslandi tilbúin ritgerð til skila.pdf | 990.89 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |