Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/17126
Í rannsókninni er fjallað um útsaum í íslenskri menningarsögu frá seinni hluta 19. aldar og fram á 20. öld, með áherslu á hvítan útsaum. Spurning sem oft heyrist er hvort „hvítsaumur“ eða aðrar saumgerðir séu íslenskar. Víða má sjá í heimildum að uppruna og tækni hvítsaums megi rekja til endurreisnar, og hugtökin „renaissance“ og „reticella“ sem merkja endurreisn og kniplingasaumur, koma oft fyrir án frekari skýringa. Drepið er á sögu endurreisnar og kniplinga og þróun hedebo-hvítsaums danskra bændakvenna rakin. Kniplingar eru listræn menningararfleið sem liggur eins og þráður í gegnum hvítan útsaum allt fram til okkar tíma.
Á 19. öld kom mikið bakslag í allt listrænt handverk og mátti að hluta rekja það til frönsku byltingarinnar og vélvæðingar útsaums. Í Appenzell í Sviss náði hvítur útsaumur að standast samkeppni vélunnins útsaums sem nánast hafði yfirtekið handverkið á öllu meginlandi Evrópu. Í Danmörku og fleiri löndum risu listamenn upp gegn lífvana eftirlíkingum fjöldaframleiddra muna. Þeir sóttu hugmyndir að listsköpun hins nýklassíska stíls til forngrískrar höggmyndalistar og þetta færði hannyrðum nýtt blómaskeið.
Um aldamótin 1900 verða miklar framfarir í efnahags- og atvinnulífi þjóðarinnar. Konur sauma út að erlendum sið og tísku, ljósadúka, undirfatnað, rúmföt og ýmsa muni í takt við nýja strauma á heimilum borgarastéttar sem höfðu ýtt við gamla bændasamfélaginu. Sérhver grein fann sér tákn hins nýja tíma sem mótaði sjálfsmynd og fegurðartilfinningu fólks. Rannsóknin beinist að útsaumsverkum sem saumuð voru af íslenskum konum samkvæmt erlendri tísku. Hvítur útsaumur setti sterkan svip á hannyrðir íslenskra kvenna á því tímabili sem ritgerðin tekur fyrir: enskur og franskur saumur, feneyjasaumur, harðangur- og klaustursaumur, heðibú og hvítsaumur, auk fleiri saumgerða. Í rannsókninni er þróun útsaums rakin og leitað svara við spurningunni hvort hvítsaumur sé íslenskur.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Fingerd fegurd.pdf | 62,37 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |