Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/17147
Á síðari árum hefur Ísland í vaxandi mæli verið að taka á sig mynd fjölmenningarsamfélags. Meðal þeirra trúarbragða sem fest hafa rætur í landinu er búddhisminn í sínum ýmsu myndum. Færa má rök fyrir því að upphafið að áhuga margra Íslendinga á búddhisma megi rekja til Guðspekifélags Íslands sem stóran hluta 20. aldarinnar hafði frumkvæði að því að kynna austurlensk lífsviðhorf og trúarbrögð meðal landsmanna. Engin búddhísk trúfélög voru þó stofnuð í landinu fyrr en upp úr 1980. Annars vegar var þar um að ræða Íslendinga sem ýmist höfðu kynnst búddhískum hreyfingum erlendis eða komið sér í samband við þær eftir að hafa lesið sér til um þær og hins vegar innflytjendur, einkum frá Taílandi, sem kusu að stofna eigið trúfélag til að varðveita trúarhefðir sínar og siði.
Framan af 20. öldinni var tekist á um raunverulegt inntak búddhismans hér á landi, þ.e. raunverulega hugmyndafræði hans og merkingu grundvallarhugtaka á borð við tómið og nirvana. Markmið ritgerðarinnar er að gefa yfirlit yfir helstu ágreiningsefnin um inntak og eðli búddhismans en það er gert með hliðsjón af viðteknum skilgreiningum og flokkunarkerfum trúarlífsfélagsfræðinga á trúarhugtakinu, mismundandi félagslegum formgerðum hreyfinga og félagslegum forsendum þess að þær geti náð árangri og fest rætur. Þetta er allt gert með sögulegu yfirlit yfir tilurð þessara hreyfinga á Íslandi þar sem hugmyndafræði þeirra og starfsemi er greind.
Búddhisminn er á engan hátt einsleit hugmyndafræði, hvorki hérlendis né erlendis, heldur greinist hann í fjölmargar stefnur og hreyfingar sem þegar betur er að gáð geta reynst harla ólíkar. Þetta sést glögglega þegar helstu hreyfingar búddhista sem starfað hafa hér á landi eru bornar saman. Félagslegar formgerðir þessara hreyfinga eru að sama skapi af ýmsum toga, allt frá skipulögðum trúfélögum til algjörrar einstaklingshyggju þar sem einkatrúin er höfð að leiðarljósi.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Búddhismi á Íslandi MA-1.pdf | 885.68 kB | Lokaður til...15.01.2114 | Heildartexti |
Athugsemd: Ritgerðin er læst vegna þess að til stendur að birta hana sem ritrýndar greinar.