Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/17181
Í þessari ritgerð er fjallað um nokkrar af myndum danska leikstjórans Lars von Trier. Könnuð er lagskipting í miðlun þeirra á frásögn út frá kenningum um söguhöfund og sögumann. Kvikmyndir hans einkennast margar hverjar af áhugaverðum leik með miðilinn og verður sérstaða þeirra hvað þetta varðar rannsökuð. Velt er upp spurningum varðandi hlutverk eininga í miðlun og gerandahæfni þeirra. Litið er á ágreining innan kvikmyndafræða hvað varðar söguhöfund og sögumann. Ekki síst er stuðst við kenningar Seymours Chatman sem hefur aðlagað hugmyndir um söguhöfund og sögumann að kvikmyndamiðlinum í fræðiskrifum sínum. Til samanburðar eru skoðaðar kenningar Davids Bordwell sem hefur gagnrýnt kenningar Chatmans. Þannig er tekin afstaða til ágreinings fræðimannanna og stuðst í megindráttum við skilgreiningar Chatmans í túlkun á kvikmyndum Triers.
Ritgerðin skiptist í fimm hluta: inngang, þrjá greiningarhluta og lokaorð. Í fyrsta greiningarhluta ritgerðarinnar er fjallað um söguhöfund Lars von Trier og er honum skipt í tvo undirkafla. Sá fyrri fjallar um Myrkradansarann (2000, Dancer in the Dark) út frá skilgreiningu á söguhöfundinum sem miðlægri rödd kvikmyndaverks. Byggt er á skrifum Waynes C. Booth um söguhöfundinn. Í seinni undirkaflanum er söguhöfundur í Grunneiginleikum glæpsins (1984, Forbrydelsens element) greindur en einnig höfð til hliðsjónar kvikmyndin Brimbrot (1996, Breaking the Waves). Tekið er mið af skilgreiningu Chatmans á merkingarmiðlun og söguhöfundi. Í öðrum greiningarhluta ritgerðarinnar er litið á sögumann sem miðlara í kvikmyndinni Dogville (2003). Greiningin er byggð á skrifum Chatmans og Bordwells um miðlun frásagna, en þeir eru á öndverðum meiði hvað varðar hlutverk sögumanns. Farin er millileið og leitast við að nýta atriði úr kenningum beggja fræðimanna. Í þriðja greiningarhlutanum er loks fjallað um sérstöðu kvikmynda Triers hvað varðar lagskiptingu í miðlun merkingar. Tvær kvikmyndir Triers eru þar teknar fyrir og greindar: Faraldur (1987, Epidemic) og Stóri stjórinn (2006, Directøren for det hele) en einnig höfð til hliðsjónar önnur tilraunakennd verk leikstjórans.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Sigríður Regína Sigurþórsdóttir.pdf | 784.73 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |