Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/17228
Til að mæta auknum kröfum um rekjanleika og auka yfirsýn yfir aðfangakeðjur sínar hafa fyrirtæki í auknum mæli innleitt upplýsingatæknikerfi til að vakta vörur sínar við geymslu og á flutningum. Dæmi um útfærslu á slíkum kerfum er þráðlaus rauntímavöktun. Eitt þeirra fyrirtækja sem býður upp á slík vöktunarkerfi er Controlant ehf., ungt íslenskt upplýsingatæknifyrirtæki sem var stofnað árið 2004 af nemum við Háskóla Íslands.
Markmið verkefnisins er að kanna hvort það séu einhverjir staðlar sem nauðsynlegt er að innleiða og hvaða kröfur er nauðsynlegt fyrir Controlant að uppfylla jafnframt því að skoða hvaða staðlar og kröfur gætu veitt forskot á samkeppnisaðila Controlant og hvaða kröfur og staðlar hafa minna vægi.
Við úrvinnslu verkefnisins var þarfagreiningu beitt til þess að greina kröfur frá viðskiptavinum innan lyfjageirans annarsvegar og fyrirtækja sem veiða, vinna eða flytja ferskan fisk. Einnig var unnin greining á samkeppnisaðilum með það fyrir augum að bæta samkeppnisstöðu fyrirtækisins. Upplýsingum var aflað með gerð spurningalista sem sendur var á mögulega viðskiptavini og viðtölum við valda aðila úr þeim hópi, úttekt gerð á samkeppnisaðilum og lestri á fræðigreinum, lagatexta og reglugerðum. Upplýsingarnar voru því næst greindar og lagt mat á þær þarfir sem komu fram og þar með var hægt að sjá hvaða kröfur eru til staðar, vægi þeirra og hvort þær eru uppfylltar eða ekki.
Niðurstöður þarfagreiningarinnar voru þær að skýlaus krafa er á fyrirtækið að geta framvísað fullgildingarskjali (e.Computer System Validation) fyrir vöktunarkerfi sitt. Í því felst að nemar sem kerfið styðst við séu kvarðaðir skv. viðurkenndum stöðlum. Einnig sýndi þarfagreiningin að innleiðing ISO 9001 stjórnunarstaðalsins kemur til með að styrkja samkeppnisstöðu Controlant.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Gæðakröfur á söluaðila upplýsingatæknikerfa til eftirlits með ástandi lyfja og fersks fisks í geymslu og á flutningum - Gunnar Harðarson.pdf | 2.25 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |