Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/17276
Í þessari ritgerð er leitast við að svara því hvenær viðskipti útgefanda með eigin bréf geti talist markaðsmistnokun skv. 117. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.
Í fyrri hluta ritgerðarinnar er almennt fjallað um verðbréfaviðskipti, nokkur hugtök sem skipta máli og gildissvið vvl. Jafnframt er hugtakinu markaðsmisnotkun gerð skil, eins og það kemur fyrir í íslenskum lögum og markaðssvikatilskipun Evrópuþingsins og ráðsins. Jafnframt er greint frá þremur tegundum markaðsmisnotkunar í samræmi við þá aðgreiningu sem fram kemur í 117. gr. vvl. Til nánari útskýringar á hverri tegund fyrir sig er fjallað um tilvik sem komið hafa fyrir í dómsmálum, ákærum sérstaks saksóknara eða leiðbeiningum ESMA.
Í síðari hluta ritgerðarinnar er fjallað um þær reglur sem gilda um öflun eigin hluta og sjónarmið sett fram varðandi mörk þess hvenær viðskipti útgefanda með eigin bréf geti talist markaðsmisnotkun. Jafnframt er greint frá sambærilegum reglum í dönskum og norskum rétti og þær bornar saman við íslenskt lagaumhverfi.
Að lokum eru niðurstöður dregnar saman. Helstu niðurstöður eru þær að viðskipti með eigin bréf geti talist nauðsynleg í þágu félags en að aðferðin geti einnig verið varhugaverð meðal annars í ljósi þess að útgefandi geti með viðskiptunum haft ólögmæt áhrif á verðmyndun sinna eigin fjármálagerninga. Af þeim sökum er nauðsynlegt að leggja hömlur á slík viðskipti en að mati höfundar mætti setja enn frekari og skýrari takmarkanir í lög. Þannig er gerð tillaga um að tiltekið sé í lögum í hvaða tilgangi slík viðskipti séu heimil. Almennt er niðurstaðan sú að við mat á því hvort viðskipti útgefanda með eigin bréf hafi falið í sér markaðsmisnotkun skal líta til tilgangs viðskiptanna, umfangs þeirra, tímasetningu, verðs, hvort þau hafi verið til málamynda, hvort verð hafi verið búið til eða tryggt og hvort að við viðskiptin hafi verið notuð einhver form blekkingar eða sýndarmennsku.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Markaðsmisnotkun í eigin bréfum.pdf | 1.04 MB | Lokaður til...01.12.2040 | Heildartexti |