Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/17299
Hvanneyrarjörðin var friðuð sem búsvæði fyrir blesgæsir árið 2002 í samræmi við 3. tölulið 53. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd Stærð hins friðaða svæðis var 1744 ha (Stjórnartíðindi B nr. 364/2002). Hvanneyri er í sveitarfélaginu Borgarbyggð í Borgarfirði í um 12 km fjarlægð frá Borgarnesi. Friðlandið var stækkað og nær nú einnig yfir land frá 13 aðliggjandi jörðum. Friðlandið Andakíll var auglýst þann 2. febrúar 2011. Friðlandið er nú 3.086 ha að stærð og er einn af mikilvægustu áningarstöðum grænlenska blesgæsastofnsins á Íslandi (Anser albifrons flavirostris). (Stjórnartíðindi B nr. 338/2011).
Þann 4.apríl 2013 var friðlandið sett á lista Ramsar yfir alþjóðlega mikilvæg votlendissvæði, einkum fyrir votlendisfugla. Margskonar votlendi einkenna svæðið, meðal annars ósar ánna Hvítár og Andakílsár, Vatnshamravatn, flæðiengjar, mýrar og framræst ræktuð tún. Friðlandið hýsir margar tegundir votlendisfugla, sem sumar hverjar eru á válista, m.a. tegundirnar brandönd (Tadorna tadorna) og haförn (Haliaeetus albicilla). Þegar sjávarföll lækka við ósa ánna verða víðáttumiklar leirurnar að mikilvægri fæðuuppsprettu fyrir votlendisfugla (The Ramsar Convention on Wetlands, 2013)
Engin verndaráætlun hefur ennþá verið gerð fyrir friðlandið Andakíl. Í þessum drögum að verndaráætlun er ætlunin að móta framtíðarsýn og setja fram markmið til verndar náttúru- og menningarminjum svæðisins. Jafnframt eru settar fram tillögur og bent á leiðir að aðgerðum til að ná fram markmiðunum. Markmiðin með friðlýsingu svæðisins og tilkomu þess sem Ramsarsvæðis eru höfð að leiðarljósi í áætluninni. Megin hugsunin við gerð áætlunarinnar var þó að horfa til heildarinnar, að leggja áherslu á verndargildi Hvanneyrarsvæðisins í heild sinni og móta því stefnu til framtíðar.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BS_2013_Kristin_Sif_Joninudottir.pdf | 1.61 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |