Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/17392
Það færist stöðugt í vöxt að hið opinbera hafi heimildir til að úthluta takmörkuðum gæðum sem eru eftirsóknarverð og fela í sér verðmæti. Gæði geta verið takmörkuð í sjálfu sér, eins og t.d. landsvæði, og þau geta einnig verið takmörkuð af löggjafanum sem setur þá reglur um nýtingu gæðanna í skjóli valdheimilda sinna. Þegar svo er háttað er það á könnu hins opinbera að úthluta réttindum yfir gæðunum svo nýting þeirra nái þeim markmiðum sem að er stefnt með takmörkuninni. Í þessari ritgerð eru takmörkuð gæði skilgreind sem:
"Hvers konar eignir, réttindi eða önnur verðmæti sem til eru í takmörkuðu upplagi og getur verið eftirsóknarvert að eiga hlutdeild í og fellur undir forsjá hins opinbera."
Í ritgerðinni er rýnt í þau sjónarmið sem lögð eru til grundvallar við úthlutun takmarkaðra gæða. Lagagrundvöllur nokkurra réttarsviða er skoðaður og álitum, dómum, ákvörðunum og úrskurðum gerð skil. Dönsk og íslensk réttarframkvæmd er lauslega borin saman á tilteknum sviðum með það að markmiði að leiða fram mun á réttarframkvæmd og/eða réttarreglum. Megináhersla er svo lögð á almennar og óskráðar meginreglur stjórnsýsluréttarins sem koma til skoðunar þegar hið opinbera úthlutar takmörkuðum gæðum og í því tilliti fjallað sérstaklega um lögmætisregluna, réttmætisregluna og jafnræðisregluna. Þá er litið til þeirra reglna sem sveitarstjórnum ber að vinna eftir með tilliti til sjálfstjórnar þeirra.
Umfjöllun um ráðstöfunarheimildir hins opinbera er skipt í tvennt og fjallað um ráðstöfunarheimildir ríkisins annars vegar og ráðstöfunarheimildir sveitarfélaga hins vegar. Þá eru dregnar fram helstu leiðir sem stjórnvöld hafa til að úthluta takmörkuðum gæðum. Lauslega er farið í ógildingar og þau sjónarmið sem þar koma til álita s.s. sjónarmið sem mæla gegn því að ákvörðun sé ógilt þrátt fyrir að hún sé haldin verulegum annmarka.
Viðamesti hluti ritgerðarinnar fjallar um íslenska réttarframkvæmd. Meginumfjöllunin er um ráðningar í opinber störf, leigu og sölu fasteigna og fyrirtækja, þ.m.t. einkavæðingu, úthlutun lóða og úthlutun byggðakvóta. Einnig er fjallað um þau úrræði sem borgurunum eru tæk þegar stjórnvöld hafa ekki lagt til grundvallar þau sjónarmið sem þeim bar að líta til. Úrræði borgaranna á þessum réttarsviðum eru svo lauslega borin saman við reglur sem gilda um opinber innkaup þar sem búið er að lögfesta ákveðin úrræði. Að lokum eru meginniðurstöður dregnar saman.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Forsíða1.pdf | 34,83 kB | Opinn | Forsíða | Skoða/Opna | |
Heimildir stjórnvalda til að úthluta takmörkuðum gæðum - útgáfa.pdf | 1,41 MB | Opinn | Meginmál | Skoða/Opna |