is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/17442

Titill: 
 • Málfærni ungra barna (MUB). Réttmætisathugun á málþroskaprófi ætluðu börnum á aldrinum 2;0-3;11
Námsstig: 
 • Meistara
Efnisorð: 
Útdráttur: 
 • Á Íslandi er vöntun á stöðluðum mælitækjum sem talmeinafræðingar geta notað til að leggja mat á málþroska barna á aldrinum tveggja til fjögurra ára sem grunur leikur á að glími við frávik í máli. Mikilvægt er að til sé íslenskt próf sem er staðlað að íslensku þýði þannig að hægt sé að grípa inn í með viðeigandi snemmtækri íhlutun, víki málþroski barns marktækt frá meðaltali.
  Undanfarin ár hefur verið í þróun nýtt próf, Málfærni ungra barna (MUB), sem á að bæta þar úr. Heyrnar- og talmeinastöð Íslands og Námsmatsstofnun vinna saman að stöðlun prófsins á landsvísu og er þetta meistaraverkefni liður í þeirri stöðlun, þar sem réttmæti prófsins var kannað með því að bera það saman við niðurstöður tveggja undirprófa WPPSI-RIS greindarprófsins. MUB metur almennan málþroska barna og skiptist í tvo prófþætti, málskilning og máltjáningu, sem endurspegla þá meginþætti tungumálsins og þá hugsmíð sem liggur að baki prófinu, eða málfærni barna. Prófið samanstendur af 122 atriðum og tekur yfirleitt um 20 mínútur að leggja fyrir.
  Þátttakendur í þessari rannsókn voru 45 börn í leikskólum á höfuðborgarsvæðinu. Þau voru öll á aldrinum þriggja til fjögurra ára (3;0 – 3;11 ára). Tekið var klasaúrtak 20 leikskóla á höfuðborgarsvæðinu og valdi rannsakandi fjóra leikskóla eftir hentugleika af þeim lista. Skilyrði sem rannsakandi setti til þátttöku voru að börnin væru eintyngd og, án heyrnarskerðingar og greindra raskana.
  Gerð var margs konar lýsandi tölfræði fyrir úrtakið. Meðalaldur var t.d. reiknaður og skoðaður með tilliti til kyns og þriggja mánaða breiðra aldursbila. Ályktunartölfræði var notuð til að meta hvort munur væri á frammistöðu drengja og stúlkna á prófinu. Munurinn reyndist ekki marktækur, t(43)= 0,78, p = 0,23.
  Niðurstöður rannsóknarinnar gefa vísbendingu um viðunandi hugsmíðarréttmæti og að prófið meti í raun hugsmíðina málfærni barna. Fylgni á milli prófhluta MUB var há og jákvæð (r = 0,79) sem er ein vísbending um hugsmíðarréttmæti prófsins. Börnunum gekk betur á prófþáttum og fengu fleiri stig samfara hækkandi aldri. Það samband var línulegt eins og jafnan í þroskaprófum, þ.e. að getan í málskilningi og máltjáningu aukist eftir því sem börnin eldast. Það er önnur vísbending um hugsmíðarréttmæti prófsins. Fylgni við undirpróf WPPSI-RIS var há og jákvæð, sem gefur til kynna hátt samleitniréttmæti, en WPPSI-RIS hefur reynst áreiðanlegt og réttmætt mælitæki til að meta greind barna, m.a. mállega greind. Sundurgreinandi réttmæti í rannsókninni var veikara og hefði líklega verið betra að meta með öðru verklegu undirprófi WPPSI-RIS. Þessi atriði eru þó allt vísbendingar um að prófið reynist hafa viðunandi hugsmíðarréttmæti. Áreiðanleiki var góður fyrir báða prófþætti og α = 0,93 fyrir prófið í heild. Reiknaður var áreiðanleiki fyrir prófið í heild, helmingunaráreiðanleiki og endurprófunaráreiðanleiki. Fylgnistuðlarnir reyndust allir marktækir og má leiða að því líkur að prófið verið réttmætt og áreiðanlegt mælitæki þegar fram líða stundir og stöðlun verður lokið.

Samþykkt: 
 • 7.3.2014
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/17442


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
MS_verkefni_Íris W. Pétursdóttir_lokaskjal.pdf1.05 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna