Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/17456
Bakgrunnur: Vísbendingar eru um að umhverfisáhrif á fósturskeiði og í barnæsku geti aukið líkur á hjarta- og æðasjúkdómum síðar á lífsleiðinni. Markmið þessarar rannsóknar var að skoða tengsl vaxtar á fósturskeiði, ungbarnaskeiði og á skólaaldri við áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma síðar á lífsleiðinni. Skoðuð voru áhrif umhverfisþátta á fósturvöxt og vöxt barna á skólaaldri og tengsl vaxtar við áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma hjá einstaklingum sem fæddust á öðrum og þriðja áratug tuttugustu aldar og tóku þátt í Reykjavíkurrannsókn Hjartaverndar. Að auki voru áhrif næringar á fyrstu mánuðum eftir fæðingu skoðuð með tilliti til þyngdar og líkamsþyngdarstuðuls (LÞS) að 6 ára aldri í framsýnni hóprannssókn á börnum sem fæddust á fyrsta áratug tuttugustu og fyrstu aldar.
Reykjavíkurranssókn Hjartaverndar: Vöxtur á fósturskeiði og skólaaldri
Upplýsingum um fæðingarþyngd og -lengd (n=4601), ásamt hæðar- og þyngdarmælingum úr skólaheilsugæslu frá 8 til 13 ára aldurs (n=1924), var safnað fyrir alla einstaklinga sem fæddust í Reykjavík (1914-1935) og tóku þátt í Reykjavíkurannsókn Hjartaverndar. Skoðuð voru tengsl vaxtar við áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma, sem metnir voru við skráningu í Reykjavíkurrannssókn Hjartaverndar (1967-1991), og við dauðsföll af völdum hjarta- og æðasjúkdóma til 31. desembers 2009.
Börn sem voru fædd 1930-1934, eftir að kreppan mikla skall á árið 1930, höfðu marktækt lægri fæðingarþyngd og “ponderal index” borið saman við börn sem fædd voru áður en kreppan skall á (1925-1929). Á fullorðinsaldri, við skráningu í Reykjavikurransókn. voru þeir einstaklingar sem fæddir voru eftir að kreppan skall á líklegri til að vera of feitir (LÞS≥30kg/m2), líkindahlutfall (odds ratio) 1.40 með 95% öryggisbil (95% CI 1.09, 1.77), borið saman við börn fædd fyrir kreppuna.
Þegar vöxtur barna á skólaaldri (8-13 ára) var skoðaður sáust tengsl milli aukningar í LÞS frá 8 til 13 ára aldurs og dauðsfalla af völdum hjarta- og æðasjúkdóma; áhættuhlutfall (hazard ratio) 1.49 (95% CI 1.03, 2.15) fyrir karla og 2.32 (95% CI 1.32, 4.08) fyrir konur. Skýrari tengsl voru milli breytinga á LÞS frá 8 til 13 ára og áhættuþátta hjarta- og æðasjúkdóma, þ.e. blóðþrýstings, blóðfitu og LÞS, hjá karlmönnum á fullorðinsaldri, en hjá konum. Einnig voru áhrif hámarks hæðarbreytinga (Peak height velocity: PHV) stúlkna frá 8 til 13 ára aldurs skoðuð sérstaklega en PHV er metill fyrir vöxt tengdum snemmbærum kynþroska. Dauðsföll af völdum hjarta- og æðasjúkdóma voru algengari hjá þeim konum sem höfðu náð PHV fyrir 11 ára aldur og milli 11-12 ára aldurs miðað við þær sem náðu PHV við 13 ára aldur eða seinna, áhættuhlutfall: 1.87 (95% CI 1.07, 3.26) og 2.56 (95% CI 1.52, 4.31). Almennt voru tengsl milli vaxtar við 8-13 ára aldur og dauðsfalla af völdum hjarta- og æðasjúkdóma stöðug þótt leiðrétt væri fyrir LÞS á fullorðinsaldri.
Næring á fyrstu ævimánuðum og þyngd við 6 ára aldur
Upplýsingum um mataræði á fyrstu mánuðum æviskeiðs 154 ungabarna fæddum árið 2005 var safnað og þeim fylgt eftir til 6 ára aldurs. Upplýsingar um hæð og þyngd voru einnig fengnar frá heilsugæslu. Þau börn sem voru byrjuð að fá fasta fæðu við 5 mánaða aldur voru þyngri en þau börn sem voru eingöngu á brjósti við 5 mánaða aldur og sást munur á þyngd þessara hópa strax við 2 mánaða aldur. Við 6 ára aldur voru þau börn sem byrjuð voru að fá fasta fæðu við 5 mánaða aldur með að meðaltali 0.7kg/m2 (95% CI 0.05, 1.3) hærri LÞS en þau börn sem voru eingöngu á brjósti við 5 mánaða aldur.
Ályktanir: Efnahagsþrengingar í kreppunni miklu árið 1930 í Reykjavík virðast hafa haft neikvæð áhrif á fósturvöxt sem aftur virðist hafa leitt til aukinnar áhættu á offitu á fullorðinsaldri, en offita er þekktur áhættuþáttur hjarta- og æðasjúkdóma. Varðandi fæðuvenjur á fyrstu mánuðum ævinnar benda niðurstöður okkar til þess að neysla fastrar fæðu strax við 5 mánaða aldur hafi forspárgildi fyrir LÞS við 6 ára aldur og mikilvægt sé að skoða betur áhrif fæðuvals ef ráðleggingum um eingöngu brjóstgjöf til 6 mánaða aldurs er ekki fylgt, sér í lagi m.t.t áhrifa á þyngd barna síðar meir. Þegar kemur að vexti á skólaaldri, við 8-13 ára aldur, benda niðurstöður okkar til þess að hröð aukning í LÞS hafi forspárgildi fyrir dauðsföll af völdum hjarta- og æðasjúkdóma hjá bæði körlum og konum. Einnig virtist snemmbær vaxtarkippur tengdum kynþroska hjá stúlkum hafa forspárgildi fyrir dauðsföll af völdum hjarta- og æðasjúkdóma. Þar sem vaxtarmælingar eftir 13 ára aldur voru ekki skráðar var ekki unnt að skoða samsvarandi tengsl hjá körlum en niðurstöður okkar gefa samt ákveðna vísbendingu um að lífeðlisfræðilegar breytingar tengdar snemmbærum kynþroska geti hugsanlega haft áhrif á hjarta- og æðasjúkdóma síðar á lífsleiðinni.
Þegar kemur að forvörnum gegn hjarta- og æðasjúkdómum hefur mikil áhersla verið lögð á aðgerðir á fullorðinsaldri. Niðurstöður okkar benda til þess að umhverfisáhrif snemma á lífsleiðinni geti haft langvarandi áhrif og aukið líkur á hjarta- og æðasjúkdómum, og að mikilvægt sé að leggja áherslu á fæðuvenjur og lífsstíl sem tryggi hæfilegar þyngdarbreytingar og vöxt strax á meðgöngu og barnsaldri en ekki einungis á fullorðinsaldri.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Cindy Thesis.pdf | 2.34 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |