Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/17521
Á undanförnum áratugum hafa framfarir í flugsamgöngum greitt götur viðskipta, auðveldað stjórnsýslu og aukið ferðafrelsi almennings með því að gera einstaklingum kleift að ferðast á milli staða á tiltölulega skömmum tíma. Flugsamgöngur þjóna stóru hlutverki í samgöngukerfinu á Íslandi. Á hverju ári reiða yfir hálf milljón farþega sig á flugleiðir innanlands og farþegar á flugleiðum milli Íslands og annarra landa eru fleiri en tvær milljónir. Farþegar greiða fargjald til flugfélaga sem lofa að koma farþegunum á réttan áfangastað og á réttum tíma. Ef flugfélögin vanefna þennan samning með því að seinka eða aflýsa flugferðum geta farþegar orðið fyrir tjóni á hagsmunum sínum.
Þegar samningur er vanefndur getur sá, sem vanefnd beinist gegn, gripið til ýmissa úrræða til að ná fram efndum samningsins eða ígildi efnda hjá þeim sem vanefnir. Það fer eftir eðli vanefndar til hvaða vanefndaúrræðis skuldari getur tekið en algengustu vanefndaúrræðin eru meðal annarra efndir in natura og skaðabætur. Þegar flugfélag vanefnir samning við flugfarþega með því að aflýsa eða seinka flugi á flugfarþegi í raun aðeins kost á því að krefjast skaðabóta þar sem efndir in natura eru ómögulegar.
Réttur flugfarþega til bóta er verndaður í lögum um loftferðir nr. 60/1998 (hér eftir lfl.) og með reglugerð nr. 261/2004/EB um skaðabætur og aðstoð til handa farþegum í flugi sem neitað er um far og þegar flugi er aflýst, seinkað eða flýtt eða vegna tapaðs farangurs eða tjóns á honum. Efni þessarar ritgerðar er að skýra inntak þessara bótareglna flugfarþega og kanna hvernig reglunum er beitt í framkvæmd.
Ritgerðin skiptist í fjóra kafla. Í kafla 2 verður fjallað almennt um reglur kröfuréttarins um skaðabætur innan samninga og grein gerð fyrir grundvelli bótaréttarins. Í kafla 3 er fjallað um bótareglur sem fram koma í lögum um loftferðir nr. 60/1998 og reglugerð nr. 261/2004/EB. Í kafla 4 verða niðurstöður ritgerðarinnar dregnar saman.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Bótaréttur flugfarþega í tilviki seinkunar.pdf | 449.31 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |