Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/17536
Frá stofnun Evrópusambandsins hefur evrópuréttur verið í stöðugri þróun. Það sem hófst einungis sem hefðbundið milliríkjasamstarf er nú orðið að sambandi með yfirþjóðlega stjórnskipun sem er skýrlega greint frá hefðbundnu milliríkjasamstarfi. Hið sama á við um Evrópska efnahagssvæðið en því var frá upphafi ætlað að vera hefðbundið milliríkjasamstarf. Evrópska efnahagssvæðið hefur þróast í þá átt að líkjast Evrópusambandsrétti en gengur þó ekki jafn langt að vera orðið yfirþjóðlegs eðlis.
Það er markmið þessarar ritgerðar að skoða tvö sambærileg réttarúrræði innan þessara tveggja sambanda, þ.e. forúrskurða ESB-dómstólsins og ráðgefandi álita EFTA-dómstólsins. Í 267. gr. sáttmálans um framkvæmd Evrópusambandsins er fjallað um forúrskurði og er þar afar skýrt hvert hlutverk þeirra er og hvaða afleiðingar það hefur fyrir aðildarríki sambandsins að fara ekki eftir þeim. Í 34. gr. EFTA-samnings um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls er hins vegar fjallað um ráðgefandi álit og gefur orðalag þeirrar greinar til kynna að úrlausnirnar séu einungis ráðgefandi og það hafi engar afleiðingar fyrir aðildarríki sé þeim ekki fylgt. Um þetta hefur verið efast á seinni tíð þar sem samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið hefur verið í stöðugri þróun og halda fræðimenn því fram að ekki sé lengur einungis um hefðbundið milliríkjasamstarf að ræða heldur sé hann sui generis eða sérstaks eðlis. Hann sé því hvorki yfirþjóðlegur né hefðbundinn milliríkjasamningur heldur einhvers staðar þar mitt á milli.
Markmið EES-samningsins var að rýmka innri markað Evrópusambandsins til yfirráðasvæðis EFTA-ríkjanna og koma á öflugu og einsleitu Evrópsku efnahagssvæði. Þetta markmið má finna í 1. mgr. 1. gr. EES-samningsins. Í 3. gr. samningsins felst síðan hollustuskylda aðildarríkjanna sem hefur mikla þýðingu fyrir markmiðið um einsleitni. Samkvæmt henni skulu samningsaðilar gera allar ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að staðið verði við skuldbindingar sem af samningnum leiðir. Skipta þessar meginreglur höfuðmáli þegar afleiðingar ráðgefandi álita og forúrskurða eru skoðaðar.
Hér verður leitast við að skoða hver raunveruleg áhrif ráðgefandi álita eru fyrir aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og hvaða afleiðingar það hefði að virða þau að vettugi. Þetta verður kannað með hliðsjón af forúrskurðum ESB-dómstólsins og þessi sambærilegu réttarúrræði borin saman.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BA-ritgerð Þórunn Káradóttir.pdf | 324.56 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |