Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/17547
Í þessari ritgerð er ætlunin að athuga hver sé réttur barna, sem getin eru með gjafakynfrumu, til að þekkja uppruna sinn. Það er tvennt sem mun verða skoðað í því tilliti, annars vegar réttur barns til að vita að það sé getið með tæknifrjóvgun þar sem notuð hefur verið gjafakynfruma og hins vegar réttur barns til að vita hver kynfrumugjafinn er. Byrjað verður á því að líta til reglna barnaréttar sem eiga við og fram koma í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, (hér eftir Barnasáttmálinn). Þar verður aðallega litið til 7. gr. Barnasáttmálans, sem kveður á um rétt barns til að þekkja uppruna sinn og ákvæði 8. gr. um rétt barns til að fá upplýsingar um það sem einkennir það. Einnig verður litið til 3. gr. Barnasáttmálans, sem felur í sér að alltaf eigi að taka ákvarðanir í samræmi við það sem er barni fyrir bestu og 2. gr. sem kveður á um að aðildarríki eigi að tryggja öllum börnum þau réttindi sem getið er um í sáttmálanum án mismununar af nokkru tagi. Þá verður litið til reglna fyrrgreindra barnalaga nr. 76/2003 en þar verða þær reglur sem kveða á um rétt barns til að þekkja uppruna sinn teknar til skoðunar og kannað hvernig réttarstaða barna, sem getin eru með gjafakynfrumu, samræmist þeim ákvæðum. Í þessu samhengi verður meðal annars litið til þess hver telst lagalegt foreldri barns sem getið er með tæknifrjóvgun þar sem notuð hefur verið gjafakynfruma. Að þessu loknu verða skoðuð lög um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna nr. 55/1996 (hér eftir lög um tæknifrjóvgun) og athugað hvernig ákvæði þeirra laga samrýmast reglum barnaréttar. Þá verða lög um ættleiðingar nr. 130/1999 (hér eftir lög um ættleiðingar) skoðuð með tilliti til laga um tæknifrjóvgun. Að lokum verða niðurstöðurnar dregnar saman.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BAritgerd2014.pdf | 594.06 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |