is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/17587

Titill: 
 • Túlkun samninga
Námsstig: 
 • Meistara
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
 • Líkt og heiti ritgerðarinnar bendir til fjallar hún um túlkun samninga og verður leitast við að greina hvernig samningar hafa verið túlkaðir af íslenskum dómstólum auk þess sem litið verður til dómsúrlausna á hinum Norðurlöndunum.
  Ritgerðin hefst á umfjöllun um nokkrar almennar reglur samningaréttar sem nauðsynlegt er að átta sig á áður en lengra er haldið. Er þannig í 2. kafla fjallað um þrjár mikilvægar meginreglur þessa réttarsviðs og í 3. kafla er að finna skilgreiningar á hugtökum sem stuðst verður við í ritgerðinni. Auk þess er þar að finna stutta umfjöllun um það hvernig dómstólar ákvarða tilvist og efni löggernings en nauðsynlegt er að slíkt sé gert áður en að túlkun hans kemur.
  Í 4. kafla er komið að hinu eiginlega efni ritgerðarinnar en þar er fjallað um nokkur almenn atriði er varða túlkun samninga sem nauðsynlegt er að átta sig á áður en hin eiginlega túlkun hefst. Verður þar fyrst fjallað um hvert markmið túlkunar sé, eða m.ö.o. hvað á að vaka fyrir þeim sem túlkar samning og þar á eftir verður svo fjallað um túlkunarreglur sem geta komið fram í lögum eða samningnum sjálfum en áður en samningur er túlkaður verður að gæta að því hvort slíkar reglur eigi við og ákvarða hvaða þýðingu þær skuli hafa í því tiltekna tilviki.
  Í 5. kafla er fjallað um þær kenningar sem hafa verið ráðandi við mat á því hvernig skýra skuli samninga en þær hafa verið nefndar viljakenningin og traustkenningin en til einföldunar má segja að hin fyrrnefnda feli í sér huglæga túlkun en hin síðari hlutlæga túlkun.
  Það má segja að 6. og 7. kafli ritgerðarinnar séu burðarstoð ritgerðarinnar en þeir fjalla um skýringu og fyllingu en í norrænum rétti er hefð fyrir því að greina túlkun samninga í þá tvo þætti. Í þeim köflum verður farið yfir fjölmarga dóma og af þeim verður reynt að draga ályktun um hvaða reglur og sjónarmið gilda um skýringu og fyllingu samninga í íslenskum rétti.
  Eftir þá almennu umfjöllun þrengist efnið nokkuð og verður fjallað um túlkun staðlaðra samningsskilmála í 8. kafla en sökum sérstaks eðlis slíkra skilmála gilda nokkur sérsjónarmið um túlkun þeirra sem nauðsynlegt er að huga sérstaklega að. Umfjöllunarefnið þrengist svo enn frekar í 9. kafla en þar mun verða fjallað um túlkun nokkurra algengra samningsákvæða.
  Þegar hér er komið við sögu hefur umfjölluninni um túlkun í íslenskum rétti verið lokið og verður þá horft út fyrir landsteinana. Er fjallað um enskan rétt í 10. kafla en í þeim 11. verður fjallað um þá lagasamræmingu sem átt hefur sér stað í samningarétti og mun í stuttu máli verða fjallað um þær túlkunarreglum sem settar hafa verið fram í fræðiriti um meginreglur evrópsks samningaréttar, reglum UNIDROIT og reglum CISG en þær reglur ættu að gefa ágætis mynd af þeim reglum sem almennt eru við líði í okkar helstu nágrannaríkjum.
  Að lokum verða svo helstu niðurstöður ritgerðarinnar dregnar saman í lokakafla ritgerðarinnar og er það von höfundar að þær gefi nokkuð skýra mynd af þeim reglum og sjónarmiðum sem gilda um túlkun samninga í íslenskum rétti.

Samþykkt: 
 • 25.4.2014
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/17587


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Túlkun samninga.pdf376.71 kBLokaður til...30.04.2134MeginmálPDF
Forsíða (1).pdf81.32 kBLokaður til...30.04.2134ForsíðaPDF