Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/17623
Í þessari ritgerð er leitast við að staðsetja leikstýruna Sofiu Coppola í umfjöllun kvikmyndafræðinga um höfundarkenninguna og greina verk hennar í ljósi kenningarinnar.
Fyrst er fjallað um kenninguna sjálfa, grein gerð fyrir megináherslum hennar og spurt hvað felist í því að kallast sannur kvikmyndahöfundur, eins og þessar áherslur hafa verið kynntar af fræðimönnum.
Í ritgerðinni eru kvikmyndir Sofiu, sem eru fimm talsins, greindar kerfisbundið og þeim skipt í tvo flokka eftir innbyrðis tengslum þeirra en einnig því sem greinir þær að. Höfundareinkennin eru dregin fram, persónur og stílbrigði greind og ljósi varpað á innihaldsþemu og einkenni Sofiu sem leikstýru. Fyrst eru það myndirnar sem fjalla um unglinga, The Virgin Suicides (1999), Marie Antoinette (2006) og The Bling Ring (2013) og því næst þær sem fjalla um samskipti tveggja aðila og beinast frekar að fullorðnu fólki, Lost in Translation (2003) og Somewhere (2010).
Meginniðurstöður greiningarinnar eru að ákveðinn stíll í kvikmyndatöku og sérstök áferð einkenni höfundaverk Sofiu. Hún gefur áhorfandanum sjálum færi á að túlka það sem fyrir augu ber með löngum tökum og notkun þagna sem ekki er mjög algengt í Hollywood-myndum samtímans. Ráðvilltar persónur og sams konar þemu eru ráðandi í öllum myndunum.
Þegar teknar eru saman útskýringar fræðimanna á því hvað kvikmyndamaður þurfi að hafa til brunns að bera til að kallast sannur höfundur, er niðurstaðan sú að Sofia Coppola falli vel inn í þann hóp. Hún sér um handritsvinnuna og kvikmyndastíllinn er frá henni kominn. Bakgrunnur hennar og lífstíll almennt er mikill áhrifaþáttur í viðfangsefni myndanna og því greinileg spenna á milli eigin reynslu og verkanna, eins og bent hefur verið á að sé mikilvægur þáttur í höfundarkenningunni. Þessi innri merking kemur sterkt fram þegar rýnt er í stemninguna í myndum hennar.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
NINNA-BA-RITGERD-LOKALOKA.pdf | 312.54 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |