is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/17640

Titill: 
 • Trúfrelsi og rétturinn til að rækja trú í opinberri starfsemi
 • Titill er á ensku Freedom of religion and the right to manifest religion in the public sector
Námsstig: 
 • Meistara
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
 • Markmið ritgerðar þessarar er að fjalla um þann rétt sem einstaklingar njóta til að rækja trú sína í opinberri starfsemi. Til umfjöllunar er bæði trúfrelsi opinberra starfsmanna og þeirra sem sækja opinbera þjónustu.
  Á síðustu árum hefur í auknum mæli borið á togstreitu og samfélagslegum árekstrum vegna réttar einstaklingsins til iðkunar trúarbragða, einkum í fjölmenningarsamfélögum á Vesturlöndum. Með setningu laga og reglugerða hafa sum ríki skilið að öllu leyti milli trúarbragða og starfsemi ríkisins. Með því að rjúfa alfarið þessi tengsl vakna upp spurningar að hvaða marki opinberir starfsmenn og þeir sem sækja opinbera þjónustu þurfi að þola takmarkanir á trúfrelsi sínu og þá hvort skuli vega þyngra; trúfrelsi einstaklingsins eða hagsmunir ríkja að halda opinberri starfsemi hlutlausri gagnvart trúarbrögðum.
  Réttur einstaklinga til að iðka trú sína er tryggður í 63. gr. stjórnarskrárinnar. Eins og önnur ákvæði stjórnarskrárinnar um mannréttindi hefur þessi grein sterk tengsl við samsvarandi ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu. Af 1. mgr. 9. gr. MSE leiðir að einstaklingum er tryggt frelsi til trúar og til að rækja trú sína með guðsþjónustu, boðun, breytni og helgihaldi. Hins vegar er heimilt í 2. mgr. 9. gr. að leggja takmarkanir á þann rétt ef þær eru lögmæltar, stefna að lögmætu markmiði og ef nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna almannaheilla, til verndar allsherjarreglu, heilsu manna eða siðgæði eða rétti og frelsi. Í þessari ritgerð verður reynt að varpa ljósi á réttarstöðu opinberra starfsmanna sem kjósa að rækja trú sína með breytni og þeim takmörkunum sem trúfrelsi þeirra getur þurft að sæta vegna aðgerða stjórnvalda, einkum í ljósi dómaframkvæmdar Mannréttindadómstóls Evrópu um efnið. Einnig verður fjallað um rétt annarra til að rækja trú sína í opinberri starfsemi eða til að verða ekki fyrir áhrifum frá trúariðkun opinberra starfsmanna. Sú breytni sem m.a. verður skoðuð nánar er þegar framangreindir einstaklingar tjá trúarskoðanir sínar með notkun trúarlegra tákna og klæðaburðar. Áhersla verður lögð á það sérstaka álitamál sem getur risið upp varðandi rétt opinberra starfsmanna til slíkrar tjáningar í starfi sínu og hvort þetta form tjáningar samræmist hlutverki þeirra andspænis rétti borgara sem þurfa að nýta sér opinbera þjónustu. Einnig geta vandamál vaknað upp þegar starfsskyldur opinberra starfsmanna samrýmast ekki trúarlegri sannfæringu þeirra. Þá má einnig velta fyrir sér hver sé réttur annarra þegar starfsmaður ríkisins neitar að veita ákveðna þjónustu vegna sannfæringar sinnar.
  Efni 2. kafla er helgað almennri umfjöllun um inntak 9. gr. MSE um hugsana-, samvisku- og trúfrelsi. Fjallað er m.a. um almennar takmarkanir trúfrelsis skv. 2. mgr. 9. gr. og birtingarmyndir tjáningar trúarskoðana. Í 3. kafla er fjallað um trúarleg tákn og klæðaburð í opinberri starfsemi. Dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu á þessu sviði er sérstaklega rakin og réttarstaða einstaklinga greind út frá niðurstöðum hans. Í 4. kafla eru skoðuð önnur tilvik þar sem trúarleg breytni opinberra starfsmanna getur valdið ágreiningi og að hvaða leyti réttindi annarra, sem sækja opinbera þjónustu, geti sætt takmörkunum. Þar má nefna rétt opinberra starfsmanna til að skorast undan starfsskyldum vegna trúarlegrar sannfæringar sinnar. Í 5. kafla er réttur til að rækja trú í opinberri starfsemi skoðaður í samræmi við íslenska réttarframkvæmd og hvort til staðar séu lög eða reglur sem styrkt geti réttinn eða takmarkað hann.

Samþykkt: 
 • 2.5.2014
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/17640


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
MA Þóra Bjarnadóttir.pdf716.73 kBLokaður til...01.05.2050HeildartextiPDF