en English is Íslenska

Thesis (Master's)

University of Iceland > Hugvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Hugvísindasvið >

Please use this identifier to cite or link to this item: https://hdl.handle.net/1946/17651

Title: 
  • Title is in Spanish La cultura en el aprendizaje y en la enseñanza de ELE. El contexto islandés
Degree: 
  • Master's
Abstract: 
  • Abstract is in Icelandic

    Undanfarin ár hefur skapast meiri umræða um mikilvægi menningarþáttarins í tungumálanámi og –kennslu. Sagt er að tungumálið og menningin séu órjúfanlegir þættir og að ekki sé hægt að kenna annað án hins. Með þessu kemur mikilvægi menningarinnar í ljós þegar um er að ræða tungumálanám, þar sem nauðsynlegt er að þekkja til menningar þeirra landa þar sem markmálið er talað. Ljóst þykir að ekki er nóg að hafa vald á orðaforða og að kunna allar málfræðireglur utanbókar, því þegar til lands markmálsins er komið þá vantar stóran þátt í tungumálakunnáttuna ef við búum ekki yfir þekkingu er varðar menningu landsins þar sem hún endurspeglast í tungumálinu sjálfu.
    Í þessari ritgerð er fjallað um menningarhlið spænskukennslu og spænskunáms á framhaldsskólastigi á Íslandi. Markmið ritgerðarinnar er tvíþætt: annars vegar að varpa ljósi á skoðun framhaldsskólakennara í spænsku á menningarhlið tungumálanáms með það fyrir augum að komast að því hvort þeim finnist menningarhlutinn mikilvægur í tungumálakennslunni eða ekki. Jafnframt er kannað hvort kennurum finnist ákveðin atriði innan menningarinnar skipta meira máli en aðrir. Hins vegar er markmiðið að athuga hvað íslenskir nemendur í spænsku þekkja til menningu Spánar, m.a. frægar persónur: leikarar, tónlistarfólk og íþróttamenn, borgir, hátíðir, mat og drykk, siði og venjur, listamenn og listaverk. Einnig lék forvitni á að vita hvort nemendur væru færir um að greina á milli uppruna frægs fólks og matar og drykkjar, þ.e.a.s. hvort þeir gerðu greinarmun á því hvort ákveðin manneskja væri frá Spáni eða öðru spænskumælandi landi, eða hvort þeir skilgreindu alla sem Spánverja. Bæði kennarar og nemendur tóku þátt í könnunum sem skiluðu niðurstöðum ritgerðarinnar.
    Í upphafi ritgerðarinnar er fjallað um stöðu spænskunnar á Íslandi auk þess sem farið er í stuttu máli yfir spænskukennslu á Íslandi, og er áhersla lögð á framhaldsskólastigið. Því næst er fræðilegum ramma ritgerðarinnar gerð skil og m.a. skoðaðar eru skilgreiningar á hugtakinu menning og jafnframt er rætt hvers vegna, hvernig og hvaða menningu ætti að kenna í tungumálanámi, auk þess sem menningarkennslan er skoðað í íslensku samhengi með tilliti til kennslubóka sem notaðar eru í spænskukennslu hér á landi. Aðferðafræði við vinnu á könnunum fyrir ritgerðina er rædd áður en kannanirnar þrjár sem gerðar voru eru skoðaðar hver fyrir sig og svör við spurningunum eru birt og rædd. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að kennarar líti frekar jákvæðum augum á menningarhluta tungumálakennslunnar og finnist hann vera mikilvægur þáttur hennar. Íslenskir nemendur þekktu sitthvað er viðkemur spænskri menningu, en staðfestu þann grun okkar að þeir væru yfir höfuð ekki færir um að greina á milli persóna og hluta eftir uppruna þeirra, þ.e. Spánar eða Rómönsku Ameríku.

Accepted: 
  • May 2, 2014
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/17651


Files in This Item:
Filename Size VisibilityDescriptionFormat 
Ritgerð í heild - Leiðrétt Skemman.pdf3,97 MBOpenHeildartextiPDFView/Open