Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/17661
Í þessari rannsókn er kynjanotkun karlþjálfara íþróttaliða kvenna könnuð. Síðustu ár hefur borið á því að karlþjálfarar fjalli um sig og íþróttakonurnar í kvenkyni en ekki í hvorugkyni eins og hefðbundið er þegar hópur samanstendur af báðum kynjum og vísi jafnframt í karlkynsnafnorð með kvenkyns fornafni og lýsingarorði.
Þátttakendurnir sem voru valdir í rannsóknina eru karlþjálfarar kvenna í handbolta, knattspyrnu og körfubolta. Ekki var gerlegt að hafa alla þjálfara deildanna með þar sem ekki fundust viðtöl við þá alla en annar af tveimur hlutum rannsóknarinnar byggir á frjálsu tali sem var fengið með því að hlusta á viðtöl sem er að finna hjá nokkrum netmiðlum. Hlustað var eftir setningum sem innihalda 1. persónu fleirtöluorðið við og skráð niður hvort viðkomandi þjálfari notaði hvorugkyn eða kvenkyn í orðum sem vísa í það. Einnig voru tekin máldæmi þar sem nöfn íþróttafélaga koma fyrir og fleirtalan leikmenn en allur gangur er á því hvort þjálfararnir segi að allir leikmennirnir séu tilbúnar eða tilbúnir eða að Valur sé efstar, efst eða efstir svo dæmi séu tekin. Hinn hluti rannsóknarinnar er skriflegur. Sömu þjálfarar voru fengnir til þess að velja á milli mismunandi tilbrigða setninga þar sem velja átti á milli samskonar tilbrigða og nefnd eru hér að ofan. Til þess að draga athygli þjálfaranna frá því hvað rannsóknin gengi út á, voru setningar hafðar inn á milli sem ekki höfðu neitt með hana að gera heldur fjölluðu þær um ýmsa frasa sem þekkjast í íþróttamáli. Upplýsingarnar sem þjálfararnir fengu fyrir skriflegu könnunina voru á þá leið að verið væri að kanna orðfæri og orðanotkun í íþróttamáli, hvort orðanotkun sé ólík í kvennaíþróttum og karlaíþróttum og hvort þjálfarar tali öðruvísi við íþróttakonur en íþróttakarla.
Heildarniðurstaðan sýnir að þjálfararnir kvenvæða í rúmlega 75% tilfella í skriflegu könnuninni og í rúmlega 57% tilfella í viðtölunum þar sem málbeiting þeirra kemur fram. Samkvæmt þessum tölum má telja líklegt að þjálfararnir séu meðvitaðir um kvenvæðinguna.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
MA-Ritgerd.pdf | 811,72 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |