is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/17729

Titill: 
 • Samkeppnisákvæði í ráðningarsamningum með hliðsjón af 37. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936
Námsstig: 
 • Meistara
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
 • Almennt gildir meginreglan um samningsfrelsi um ráðningarsamninga, þó með töluverðum undantekningum. Eitt það sem getur takmarkað samningsfrelsið eru ógildingarreglur III. kafla laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936. Þar á meðal regla 37. gr. laganna.
  Á aðilum ráðningarsambands hvílir gagnkvæm ólögbundin trúnaðarskylda. Jafnframt geta slíkar trúnaðarskyldur verið að finna í lögum og hægt er að semja um frekari trúnaðarskyldur en leiðir af lögum og hinni almennu trúnaðarskyldu. Einn þáttur hinnar almennu trúnaðarskyldu er að starfsmaður verður að virða samkeppnisvernd atvinnurekanda. Í því felst meðal annars að starfsmaður má almennt ekki aðhafast neitt sem í bága gæti farið við hagsmuni atvinnurekanda. Samkeppnisskuldbinding í ráðningarsamningi er nokkurs konar umsamin trúnaðarskylda og er hún gerð á grundvelli samningsfrelsisins. Kemur hún til viðbótar reglum 16. gr. c laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu nr. 57/2005, um vernd atvinnuleyndarmála, og því sem leiðir af almennum reglum um trúnaðarskylduna.
  Bæði er hægt að semja um skuldbindingu um trúnað sem gilda skal á meðan ráðningarsambandinu stendur eða eftir að því lýkur. Efni ritgerðarinnar var afmarkað við samkeppnisákvæði í ráðningarsamningum sem kveða á um að starfsmaður má ekki ráða sig til samkeppnisaðila eða hefja eigin atvinnurekstur í samkeppni við atvinnurekanda, oftast í einhvern tíma eftir að ráðningarsambandinu lýkur. Útfæra má slíka skuldbindingu á ýmsa vegu svo sem að marka henni ákveðinn gildistíma eða landfræðilegt svæði. Slíkum samningsskuldbindingum hefur ekki verið sett takmörk í lögum eins og gert hefur verið í dönskum rétti. Þó hafa ákvæði um slíkar samkeppnisskuldbindingar verið tekin upp í ákvæði ýmissa kjarasamninga. Í þeim ákvæðum er að finna viðmið sem líta ber til við matið á því hvort samkeppnisskuldbinding í ráðningarsamningi sé of víðtæk.
  Slíkar samkeppnisskuldbindingar takmarka óhjákvæmilega atvinnufrelsi starfsmannsins. Í 37. gr. samningalaga er ógildingarregla sem meðal annars tekur til slíkra skuldbindinga ráðningarsamninga um samkeppnisbann. Getur reglan leyst menn undan ósanngjörnum samningsskuldbindingum er þetta varðar. Veitir hún dómstólum heimild til þess að ógilda og, að því er virðist af dómaframkvæmd, breyta ósanngjörnum skuldbindingum við tilteknar aðstæður. Gildissvið reglunnar er þó ekki einskorðað við samkeppnisákvæði ráðningarsamninga. Samkvæmt ákvæðinu eru slíkar skuldbindingar sem ákvæðið tekur til óskuldbindandi ef skuldbinding er víðtækari en nauðsynlegt er til að varna samkeppni eða hún skerðir með ósanngjörnum hætti atvinnufrelsi þess manns sem gekkst undir skuldbindinguna. Er inntak reglunnar fremur matskennt fyrir utan að leiða má af ákvæðinu að heildarmat skuli fara fram og að við mat á síðarnefnda atriðinu skuli líta til hagsmuna þess, sem áskildi sér skuldbindinguna, að hún verði haldin.
  Af skoðun á dómaframkvæmd, þar sem reyndi á beitingu ákvæðis 1. mgr. 37. gr. samningalaga, sést að nær einungis hefur reynt á ákvæðið í tengslum við samkeppnisákvæði í ráðningarsamningum sem gilda skulu eftir að ráðningarsambandi er lokið. Leiddi sú skoðun í ljós að um fáa dóma er að ræða og einungis virðist hafa reynt á samkeppnisskuldbindingar á almennum vinnumarkaði. Í forsendum dómanna má sjá að dómstólarnir líta til ýmissa atriða við matið á því hvort skuldbindingin telst of víðtæk á grundvelli 1. mgr. 37. gr. samningalaga og marka þeir þar í leiðinni inntak ákvæðisins. Virðist beiting ákvæðis 1. mgr. 37. gr. samningalaga felast í heildarmati á skuldbindingunni hverju sinni og þeim atvikum sem eru fyrir hendi hverju sinni.
  Ákvæði 36. og 37. gr. samningalaga spila saman á margvíslegan hátt í tengslum við samkeppnisákvæði í ráðningarsamningum. Sem dæmi þá mætti ógilda févíti sem hefur verið samið um samhliða samkeppnisskuldbindingunni á grundvelli 36. gr. samningalaganna.

Samþykkt: 
 • 5.5.2014
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/17729


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
forsida.sk.pdf37 kBOpinnForsíðaPDFSkoða/Opna
MEISTARARITGERÐ.ASLAUG.pdf831.46 kBOpinnMeginmálPDFSkoða/Opna