Please use this identifier to cite or link to this item: https://hdl.handle.net/1946/17744
Útdráttur
Orðræðan um bjartar framtíðarhorfur Brasilíu og Rómönsku-Ameríku á sér langa sögu. Um það fjallaði Stefan Zweig bók sinni Brasil, Land of the future árið 1942, De Gaulle í frægri ræðu 1964 og fjölmargir áhrifamenn aðrir síðan. Tímar umbrota og átaka eru þrátt fyrir það engin nýlunda í sögu Rómönsku-Ameríku en margt bendir til að nýr kafli, ólíkur þeim fyrri, sé hafinn. Eftir áratuga skeið harðstjórnar og kúgunar eru lýðræði og mannréttindi víðast hvar að festast í sessi og því fylgir sterkari sjálfsmynd og aukið sjálfstraust. Þessi þróun hefur leitt til þess að áratuga forræði Bandaríkjanna yfir svæðinu í anda The Monroe Doctrine frá árinu 1823 sætir vaxandi gagnrýni og lönd álfunnar leita nú leiða, ýmist í samstarfi eða á eigin forsendum, til að tryggja öryggi sitt og afkomu. Engum dylst, sem kynnir sér málin, að undirliggjandi eru sterkir straumar í þá veru að Rómanska-Ameríka hljóti þann sess og þá virðingu í alþjóðakerfinu sem stærð og mannfjöldi álfunnar gefur tilefni til en mikið hefur skort á að svo sé. Hafa verður þó í huga í allri umfjöllun um Rómönsku-Ameríku að skuggi misskiptingar og fátæktar með tilheyrandi brotalömum í innviðum samfélaganna grúfir enn yfir og þar er geysimikið verk óunnið í flestum landanna.
Í þessari ritgerð, sem byggir á heimildarýni, er gerð grein fyrir þróun og sögu stofnanabundins samstarfs Suður-Ameríkuríkja svo sem í Mercosursamtökunum og Samtökum ríkja við Andesfjöll. Sérstaklega verður sjónum þó beint að nýjasta afsprengi slíks samstarfs, UNASUR, sem stofnað var til árið 2008. Samtökin sækja fyrirmynd sína til Evrópusambandsins og vísa til alveg nýrrar sýnar í heimshlutanum. Fjallað verður um samskipti S-Ameríkuríkja og Bandaríkjanna í ljósi þess að stórveldið í norðri hefur verið mikill og örlagaríkur áhrifavaldur í heimshlutanum frá því snemma á 19. öld. Helstu niðurstöður eru þær að samskipti Suður-Ameríkuríkja við umheiminn séu á vendipunkti. Færð verða rök fyrir því að nauðsynlegt sé fyrir Suður-Ameríkuríkin að rjúfa þá pattstöðu sem komin er upp í samskiptunum við Bandaríkin og skjóta fleiri stoðum undir uppbyggingu sína með nánara samstarfi við ríki Evrópusambandsins, BRIC-ríkin og ríkin á suðurhveli með tvíhliða eða marghliða samningum. Meginniðurstaðan er þó sú að farsælast sé fyrir Suður-Ameríku að feta leið aukins svæðasamstarfs.
Filename | Size | Visibility | Description | Format | |
---|---|---|---|---|---|
Vinnuskjal 3 (endurheimt).pdf | 1.23 MB | Open | Heildartexti | View/Open |