Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/17762
Þessi ritgerð er lögð fram til MA-prófs í almennum málvísindum á Hugvísindasviði Háskóla Íslands. Umfjöllunarefni ritgerðarinnar er virkni hömlu ákveðins nafnliðar í íslensku nútímamáli og hugsanleg tengsl hennar við nýju setningagerðina í máli ungs fólks í dag. Í fyrri hluta ritgerðarinnar er hömlu ákveðins nafnliðar lýst og fjallað um hugsanlegar undantekningar frá henni í nútímamáli. Fjallað er um formleg einkenni nýju setningagerðarinnar og helstu kenningar um uppruna hennar og þróun og möguleg tengsl hennar við hömlu ákveðins nafnliðar. Loks er fyrri rannsóknum á nýju setningagerðinni lýst og farið yfir helstu niðurstöður þeirra.
Í öðrum hluta ritgerðarinnar er sagt frá könnun sem var gerð til að kanna virkni ákveðnihömlunnar í máli ungs fólks og hugsanleg tengsl hennar við nýju setningagerðina. Í könnuninni tóku þátt unglingar í 10. bekk í tveim skólum á höfuðborgarsvæðinu og samanburðarhópur eldri málhafa á aldrinum 65-75. Þátttakendur lögðu mat á setningar með nýju setningagerðinni og setningar með ákveðnum síðfrumlögum á ólíkum stöðum í setningunni en einnig var tekið tilllit til félagslegra þátta, svo sem kyns, búsetu og menntunar foreldra.
Meginniðurstöður athugunarinnar eru að hamla ákveðins nafnliðar virðist veikluð í máli sumra málhafa og hún virðist veikari í máli yngri málhafa en eldri. Staða nafnliðarins í setningunni og gerð nafnliðarins höfðu áhrif á mat þátttakenda. Málhafar virðast frekar sætta sig við ákveðin síðfrumlög ef nafnliðurinn er nafnorð með greini en þeir sætta sig alls ekki við þau ef nafnliðurinn er sérnafn eða persónufornafn. Málhafar samþykkja einnig frekar setningar með ákveðnu síðfrumlagi ef það er þungur nafnliður. Athugun á setningum með nýju setningagerðinni benti til að setningagerðin sé að breiðast út á höfuðborgarsvæðinu og því eru tengsl hennar við búsetu málhafa orðin óskýrari en áður hefur komið fram. Skýr tengsl komu í ljós við aldur þátttakenda og einnig við kyn þeirra. Marktæk fylgni mældist milli nýju setningagerðarinnar og veiklunar ákveðnihömlunnar en hún reyndist ekki mjög sterk. Ekki er hægt að ráða af niðurstöðum þessarar könnunar hvort ákveðnihamlan hafi veiklast nýlega í málinu eða hvort nýja setningagerðin hafi leitt til hennar.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Ingunn Hreinberg.pdf | 952.51 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |