Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/17767
Gengistryggðir kaupleigusamningar hafa fengið mikla umfjöllun eftir efnahagshrun og tekist hefur verið á um ýmsa þætti þeirra. Í upphafi var aðallega deilt um lögmæti þess að gengistryggja slíka samninga, þar til Hæstiréttur dæmdi slíka gengistryggingu ólögmæta. Því næst var deilt um með hvaða hætti ætti að endurreikna eftirstöðvar samninganna og hefur dómaframkvæmd Hæstaréttar að nokkru leyti skýrt þá framkvæmd.
Einn þáttur hefur fengið minni umfjöllun fyrir dómstólum snýr að riftun og uppgjöri kaupleigusamninga um bifreiðir, sem jafnan eru nefndir bílasamningar, og eru í þeim efnum ýmis álitaefni sem þarfnast skoðunar. Meðal annars hvort eignaleigufyrirtækjum var heimilt að rifta samningi þegar óljóst var hvort leigutaki væri raunverulega í vanskilum. Hvort eignaleigufyrirtækjum var heimilt að vörslusvipta leigumunum án aðfarargerða á grundvelli samningsákvæða. Hvort leigutaki hafi átt að njóta þess ef bifreið var seld á hærra verði en matsvirði hennar hljóðaði á um í uppgjöri aðila eða hvort eignaleigufyrirtækin högnuðust á þessum mismun. Hvort skuldari ætti rétt á endurgreiðslu kostnaðar ef síðar hefur komið í ljós að hann var ekki í vanskilum þegar samningi var rift. Verður þetta meðal annars gert að umfjöllunarefni þessarar ritgerðar, sem er að hluta til byggð á svörum fjögurra eignaleigufyrirtækja við fyrirspurn Fjármálaeftirlitsins um uppgjör kaupleigusamninga í kjölfar riftunar. Jafnframt verða skilmálar kaupleigusamninga þessara fjögurra eignaleigufyrirtækja skoðaðir í samhengi við almenna löggjöf og dómaframkvæmd.
Ritgerðin er byggð upp þannig að í 2. kafla er fjallað almennt um eignaleigustarfsemi á Íslandi, tilkomu hennar og þróun. Þá er sérstaklega fjallað um þróun löggjafar um starfsemi eignaleigufyrirtækja, mismunandi tegundir eignaleigu kynntar og ljósi varpað á helstu einkenni hverrar tegundar fyrir sig ásamt því að bera þær saman.
Þriðji kafli tekur til riftunar kaupleigusamninga um bifreiðir. Fyrst er fjallað almennt um gildissvið og riftunarreglur laga um lausafjárkaup og jafnframt skoðað af hvaða tilefni lög um neytendalán koma til skoðunar umfram lög um neytendakaup. Því næst er fjallað um stöðu leigutaka gagnvart leigusala annars vegar og seljanda leiguhlutar hins vegar í þeim tilvikum þegar leiguhlutur reynist gallaður. Eru ákvæði kaupleigusamninga skoðuð sérstaklega og í framhaldi af því bent á dómaframkvæmd þar sem reynt hefur á riftun kaupa á bifreið eða kröfu um afslátt, þegar kaupin eru fjármögnuð með kaupleigu. Velt er upp þeirri spurningu hvort aðild eignaleigufyrirtækis sem skráðs eiganda bifreiðar sé nauðsynleg þegar leigutaki höfðar dómsmál gegn seljanda til riftunar á kaupum eða afsláttar af kaupverði.
Kafli 4 tekur til hugtaksins vörslusvipting og þeirrar víðtæku merkingar sem það hefur í daglegu tali. Lög um aðför koma til umræðu og ákvæði þeirra um innsetningargerð á grundvelli 12. kafla laganna. Í því samhengi er því velt upp hvort heimilt sé að semja sig frá aðfararlögum þannig að vörslusvipting geti farið fram án aðfarargerðar. Því næst er fjallað um breytingar sem gerðar voru á innheimtulögum til að sporna við vörslusviptingum aðila sem ekki höfðu leyfi til að stunda innheimtustarfsemi. Í kaflanum er skoðað hvort mótmæli hagsmunaaðila vegna fyrirhugaðra breytinga á innheimtulögum hafi átt við rök að styðjast. Fjallað er um neytendalöggjöf, meðal annar um hvað felst í hugtakinu eignarréttarfyrirvari og hvort undir það falli sá fyrirvari á eignarrétti sem gerður er í kaupleigusamningum. Í því samhengi er einnig skoðað hvort fyrirvari eignaleigufyrirtækjanna á eignarrétti geti talist söluveð í skilningi laga um samningsveð. Undir lok kaflans er svo í stuttu máli fjallað um framkvæmd vörslusviptinga og kannað hvort og þá hvernig eftirliti með þeim hafi verið háttað.
Í 5. kafla er fjallað um það uppgjör sem fer fram í kjölfar riftunar kaupleigusamninga um bifreiðir. Skoðuð eru ítarleg ákvæði samninganna um hvernig uppgjöri skuli háttað og fjallað um þann kostnað sem leigutaki ber samkvæmt samningi. Því næst er fjallað um matsvirði bifreiðar og það sem til frádráttar kemur. Kemur sérstaklega til skoðunar samningsákvæði sumra eignaleigufyrirtækjanna um að draga 15% frá matsvirði bifreiðar við uppgjör, fyrir ýmsum kostnaði. Er því velt upp hvort slíkt samningsákvæði geti talist ósanngjarnt í skilningi samningalaga og er meðal annars í því samhengi horft til dómaframkvæmdar Hæstaréttar Danmerkur. Þá er fjallað um hvaða úrræði stóðu leigutaka til boða ef hann mótmælti uppgjörsfjárhæð. Skoðað er sérstaklega hvort leigutaki naut góðs af því ef bifreið var seld á hærra verði en áætluðu matsvirði samkvæmt uppgjöri aðila. Er umfjöllunin meðal annars byggð á svörum eignaleigufyrirtækjanna fjögurra til Fjármálaeftirlitsins. Viðbrögðum Fjármálaeftirlitsins í kjölfar svara eignaleigufyrirtækjanna við fyrirspurn þess er svo lýst.
Að lokum er umfjöllun ritgerðarinnar dregin saman og ályktanir dregnar.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Kaupleigusamningar loka.pdf | 5.36 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Kaupleigusamningar forsíða.pdf | 70.48 kB | Opinn | Forsíða | Skoða/Opna | |
Kaupleigusamningar efnisyfirlit.pdf | 122.88 kB | Opinn | Efnisyfirlit | Skoða/Opna |